Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur minnkað um rúm tvö prósentustig frá síðustu fylgismælingu MMR og mælist nú 20,2%. Í sögulegu samhengi er fimmtungsfylgi við þennan stærsta stjórnmálaflokk landsins ótrúlega lítið.
Fyrir þingkosningarnar árið 2009, þær fyrstu eftir hrun, hafði Sjálfstæðisflokkurinn aldrei fengið minna en 27 prósenta fylgi. Árið 2009 hlaut flokkurinn hinsvegar aðeins 23,7 prósenta fylgi og nýtt met var slegið. Flokkurinn hlaut 27,2 prósent í kosningunum árið 1987 undir stjórn Þorsteins Pálssonar þegar flokkurinn klofnaði og Borgaraflokkurinn bauð fram undir forystu Alberts Guðmundssonar.
Samfylkingin mælist með 14,1% fylgi í könnun MMR, sem er nær óbreytt frá síðustu könnun. Þá minnkaði fylgi Framsóknarflokksins um tæplega eitt og hálft prósentustig en fylgi Vinstri grænna og Viðreisnar hækkaði um tæplega eitt og hálft prósentustig frá síðustu mælingu.
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkaði um um rúm fjögur prósentustig og mældist nú 40,4% en var 44,6% í síðustu mælingu.
- Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 14,1% og mældist 14,3% í síðustu könnun.
- Fylgi Vinstri grænna mældist nú 13,4% og mældist 12,1% í síðustu könnun.
- Fylgi Pírata mældist nú 13,4% og mældist 13,3% í síðustu könnnun.
- Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 9,8% og mældist 11,2% í síðustu könnun.
- Fylgi Miðflokksins mældist nú 9,2% og mældist 9,2% í síðustu könnun.
- Fylgi Viðreisnar mældist nú 9,2% og mældist 7,8% í síðustu könnun.
- Fylgi Flokks fólksins mældist nú 5,1% og mældist 5,0% í síðustu könnun.
- Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist nú 4,2% og mældist 2,8% í síðustu könnun.
- Fylgi annarra flokka mældist 1,4% samanlagt.