Á síðustu hundrað árum hefur Ísland farið frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í að vera sjötta ríkasta þjóð heims á mælikvarða landsframleiðslu á mann. Sú velmegun hefur skilað sterku velferðarkerfi, bættri menntun, blómlegu atvinnulífi og auknum möguleikum landsmanna í lífi og starfi. Lífskjör Íslendinga ráðast af mörgum þáttum en einn mikilvægur þáttur er að hér vaxi og dafni sterkar útflutningsgreinar. Fyrir smáríki eins og Ísland skiptir höfuðmáli að eiga viðskipti yfir landamæri með vörur og þjónustu.
Þetta segir í nýju áliti greiningardeildar Samtaka atvinnulífsins um Ísland og erlenda fjárfestingu.
„Alþjóðaviðskipti gera þjóðum kleift að sérhæfa sig í því sem þær gera best og kaupa það sem þær vanhagar um af öðrum. Slík samvinna eykur verðmætasköpun og velmegun. Ábati af alþjóðaviðskiptum er ekki bundinn við vöru- og þjónustuviðskipti. Fjármagnsflæði milli landa er ekki síður mikilvægt fyrir margar sakir. Aukið framboð á fjármagni á heimamarkaði stuðlar að lægra vaxtastigi og veitir aukin tækifæri til uppbyggingar og fjárfestinga. Það er ekki síst ólík nálgun, sýn og þekking sem drífur ábatann, eins og í öðru samstarfi. Erlendir aðilar geta séð tækifæri sem innlendum eru hulin, bætt það sem fyrir er með nýrri þekkingu og tækni og skapað möguleika til vaxtar,“ segir þar ennfremur.
Ísland þarf erlenda fjárfestingu
Samtök atvinnulífsins segja í skýrslunni að Ísland þurfi á erlendri fjárfestingu að halda. Íslendingar séu fáir í stóru landi, með lágan meðalaldur og vel menntaðir. Í öllum þessum sérkennum felist tækifæri en að sama skapi þörf fyrir erlenda fjárfestingu.
„Undanfarna áratugi hefur einn fylgifiskur breyttra atvinnuhátta, aukinnar menntunar og tækniframfara í landbúnaði og fiskvinnslu, verið fækkun starfa vegna aukinnar sjálfvirknivæðingar og hagræðingar í greinunum. Þetta hefur valdið því á Íslandi að byggð hefur lagst af í sumum sveitum og fjöldi minni sveitarfélaga á landsbyggðinni hafa átt í vök að verjast vegna þverrandi atvinnutækifæra. Vöxtur ferðaþjónustu hefur vissulega verið lyftistöng á mörgum svæðum, en meira þarf til.
Til marks um breytta búsetuhætti þá hefur íbúum á Vestfjörðum fækkað um nærri helming og 15% á Austurlandi á síðustu 100 árum þrátt fyrir að íbúafjöldi á landinu öllu hafi fjórfaldast. Hlutfall landsmanna sem bjó á höfuðborgarsvæðinu árið 1919 var 20% en er nú 64%. Þó þessi þróun sé að mörgu leyti eðlileg og í samræmi við það sem hefur verið að gerast í öðrum löndum þá er hún engu að síður ákveðið áhyggjuefni. Sérstaklega þegar haft er í huga að sum tækifæri verða aðeins nýtt af þeim sem búa á viðkomandi svæði. Nærtækt er að nefna ferðaþjónustuna þessu til stuðnings.
Í ljósi þessa er það fagnaðarefni þegar fjárfest er í starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins. Aukin uppbygging í fiskeldi er gott dæmi um slíka fjárfestingu, mest á Vestfjörðum en þó einnig á Reykjanesi, Austfjörðum og Norðurlandi eystra. Í mörgum tilvikum eru það erlendir aðilar sem hafa fjármagnað slíka fjárfestingu og byggja á reynslu sinni og þekkingu af öðrum sambærilegum verkefnum í öðrum löndum. Erlend fjárfesting dreifir fjárhagslegri áhættu af innlendri atvinnuuppbyggingu, hleypir nýju lífi og þekkingu í atvinnulíf landsins og styrkir tengsl við erlenda markaði.
Erlend fjárfesting í uppbyggingu fiskeldis á landsbyggðinni er kærkomin innspýting fyrir íslenskan efnahag. Flest eru fyrirtækin enn í uppbyggingarfasa og mun þróun á næstu árum skipta miklu fyrir samfélög sem sjá nú fram á blómlegra atvinnulíf. Mikilvægt er að eftirlit og reglur séu til staðar sem tryggja að staðinn sé vörður um auðlindir Íslands og að ekki sé gengið of nærri umhverfinu.
Að þessu sögðu eigum við að taka því fagnandi þegar erlendir fjárfestar sjá tækifæri til fjárfestinga hér landi,“ segir ennfremur í greiningunni.