Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, hefur fyrirskipað 300% hækkun lágmarkslauna og ætlar að auka olíuframleiðslu landsins upp í 5 milljónir tunna fyrir árið 2015, að því er hann tilkynnti þinginu í stefnuræðu sinni í vikunni.
Hækkun lágmarkslauna tekur þegar gildi, sagði forsetinn í fjögurra klukkustunda löngu ávarpi sínu, en lágmarkslaun hafa verið hækkuð sex sinnum á aðeins einu ári. Þrátt fyrir það duga þeir 18.000 bolivarar, sem verða hin nýju lágmarkslaun, aðeins til að kaupa um eitt kíló af skinku, svo dæmi sé tekið, og jafngilda um 7 bandaríkjadölum á svarta markaðnum í Venesúela, þar sem verðbólgan er komin í hæstu hæðir, eða um 240.000 prósent, hvorki meira né minna. (Sumir telja að hún fari fljótlega yfir milljón prósent).
Forsetinn kvaðst í ávarpi sínu vonast til að erlend fjárfesting frá Kína, Rússklandi, Tyrklandi og Katar yrði til þess að örva efnahag landsins.
Sósíalísk tilraunastofa
Venesúela er frá náttúrunnar hendi gífurlega auðugt land, einkum vegna mikilla olíulinda og í reynd ættu þrjátíu milljón íbúa landsins að geta haft það prýðilegt. En undanfarin ár hefur verið tekið upp sósíalískt þjóðskipulag þar með skelfilegum árangri. Þjóðnýting, valdboð og ríkislausnir áttu að koma í staðinn fyrir lögmál markaðarins með þeim afleiðingum að gífurlegur fjöldi fólks hefur flúið landið, en flestir þeirra sem eru eftir eiga hvorki til hnífs né skeiðar.
Landið komst í kastljós alþjóðlegra fjölmiðla í forsetatíð Hugo Chavez, en strætisvagnabílstjórinn Maduro tók svo við af honum. Hefur forsetatíð beggja verið lýst sem misheppnuðustu tilraunastofunni í samanlagðri sögu sósíalismans.
Undir stjórn Maduro hefur efnahagur landsins farið sífellt versnandi, fáar vörur er að finna í hillum verslana, ofbeldi hefur aukist og upplausn orðin almenn í samfélaginu.