Fyrirvarar Alþingis við innleiðingu þriðja orkupakkans munu engu skipta þegar búið verður að fjármagna sæstreng, hvort sem það verður innlent eða erlent fyrirtæki sem gerir það.
Þetta segir Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og fv. lektor í lögum við Háskólann í Reykjavík, í færslu á fésbókinni þar sem hann fjallar um umræður á þingi um þriðja orkupakkann og fréttir gærdagsins um að breskir aðilar hafi tryggt sér fjármögnun á lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands og aðeins sé beðið eftir grænu ljósi frá breskum stjórnvöldum.
„Ástæðan er sú að ef íslenska ríkið reynir þá enn að standa í vegi fyrir því að strengurinn verði lagður mun verða höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi. Íslenska ríkið mun augljóslega tapa því máli þar sem orka er vara, sbr. fjórfrelsisákvæðið um frjálst flæði á vörum,“ bætir Arnar við.
Hann undirstrikar að þetta sé nokkuð sem menn hefðu þurft að ræða heiðarlega (og ítarlegar) á fyrri stigum. Í framhaldinu hefði þá verið hægt að ræða efnislega um hagkvæmni / kostnað, kosti / galla þess að senda íslenska raforku til annarra landa.