„Ég er ánægð með stefnu Miðflokksins í orkumálum, en það er fleira. Mér finnast málefnin unnin af skynsemi. Ég tel orkupakka þrjú málið mikið hagsmunamál fyrir þjóðina og vona innilega að fleiri þingmenn taki harða afstöðu gegn því að samþykkja þingsályktunartillöguna. Auðvitað hefur það áhrif, allt gott hefur áhrif,“ segir Hildur Sif Thorarensen, verkfræðingur og rithöfundur í samtali við Viljann, en hún hefur verið dugleg að tjá sig um þriðja orkupakka Evrópusambandsins í facebook hópnum Orkan okkar.
Tíðindum þykir sæta að hún sást á flokksráðsfundi MIðflokksins sem haldinn var í Garðabæ fyrir skemmstu, en Hildur Sif var oddviti Pírata á Norðvesturlandi í Alþingiskosningunum árið 2013.
„Það liggur ljóst fyrir að ég sagði skilið við Pírata, árið eftir að við vorum þarna í framboði. Það var um það leyti sem Píratar buðu fyrst fram í borginni, árið 2014. Ástæðan fyrir því er, að þó að stefnuskráin sé e.t.v. sú sama, þá er henni ekki framfylgt og mér finnst, að það sem upphaflega var lagt upp með hjá Pírötum, sé löngu runnið út í sandinn,“ segir Hildur Sif.
hægri sjónarmið eru liggur við bönnuð, flokkurinn virðist vera runninn saman við Samfylkinguna
„Píratar eru hættir að berjast fyrir t.d. tjáningarfrelsi, gagnsæi og afglæpavæðingu eiturlyfja. Menn eru ekki lengur opnir fyrir mismunandi skoðunum, hægri sjónarmið eru liggur við bönnuð, flokkurinn virðist vera runninn saman við Samfylkinguna og hættur að vera þetta breytingaafl sem hann ætlaði sér í upphafi,“ segir hún.
Píratar setji sig á móti öllu sem kemur frá Sjálfstæðis- og Miðflokki, sama hvort það er gott eða slæmt. „Píratar nota ekki rök til að komast að málefnalegri niðurstöðu, heldur tilfinningar og flokkadrætti.“
Aðspurð segist hún hafa valið Miðflokkinn út af stefnuskránni, málefnin séu góð og skýr og beri að góðum brunni. „Ég er mjög ánægð með hvað Vigdís Hauksdóttir berst fyrir gagnsæi í borginni og því að fólkið fái að ráða. Ég held að þessi flokkur geti gert góða hluti.“
Að lokum segist Hildur Sif ekki útiloka þátttöku í starfi Miðflokksins í framtíðinni, en hún býr um þessar mundir í Noregi og starfar þar við krabbameinsrannsóknir.