Ákveðið hefur verið að byrja að afglæpavæða ofskynjunarsveppi fyrir notendur eldri en 21 árs í borginni Denver í Colorado í Bandaríkjunum.
Notkun á ofskynjunarsveppum hefur verið bönnuð í Bandaríkjunum frá árinu 1968, og hafa þeir verið flokkaðir í 1. flokki vímuefna, með mun hættulegri efnum eins og heróíni, þrátt fyrir að vera ekki ávanabindandi.
Þeir valda þó ofskynjunum, í hlutfalli við neytt magn hverju sinni.
Fram kemur í CNN, að lögð var fram tillaga um að afglæpavæða eign og neyslu til einkanota á virka ofskynjunarefninu psilocybin, sem finnst í m.a. sveppnum Trjónupeðlu, en hún vex villt á Íslandi, en eign og neysla hennar bönnuð hérlendis. Tillagan var samþykkt með naumindum, en ýmsir fjölmiðlar höfðu þegar greint ranglega frá því að hún hefði verið felld. Andstæðingar málsins gætu þó óskað eftir endurtalningu atkvæða, þar eð mjótt var á mununum, 51% samþykkir gegn 49% á móti. Lokaniðurstöðu gæti því ekki verið að vænta fyrr en 16. maí nk.
Fylgismenn málsins hafa fært rök fyrir því að engin ástæða sé fyrir hið opinbera að eltast við fólk sem notar sveppina, en virkni þeirra virðist hafa jákvæð áhrif gegn þunglyndi, kvíða, áfallastreitu og fleiri geðrænum kvillum. Einnig eru þeir taldir gagnast gegn alkóhólisma og öðrum fíknisjúkdómum, skv. nýjustu rannsóknum og reynslu notenda.
Margir neyta þeirra ánægjunnar vegna eða til að finna fyrir dýpri trúarlegri upplifun. Talsmenn rýmkunar á löggjöf um bann við neyslu vímuefna telja að löggæslu sé betur varið annarsstaðar en að eltast við neytendur sveppa, og felur tillagan í sér að löggæsla vegna sveppanotkunar skuli mæta afgangi. Ákvörðunin skuli þó endurmetin árið 2021 með tilliti til reynslu.
Colorado fylki, ásamt Washington fylki, gengu fram fyrir skjöldu í afglæpavæðingu á marijúana fyrir fólk eldra en 21 árs árið 2012. Nokkur fylki í Bandaríkjunum hafa síðan fetað í fótspor þeirra, en marijúana ásamt öðrum vímuefnum eru enn bönnuð hjá alríkinu. Vinna er í gangi í fleiri borgum og fylkjum í Bandaríkjunum við að leggja til rýmkaða vímuefnalöggjöf og löggæslu vegna vímuefna á borð við marijúana og ofskynjunarlyfja.
Lyfjafyrirtæki eru þegar byrjuð að rannsaka gagnsemi þeirra við að þróa lyf við sjúkdómum á borð við fíknir, geðsjúkdóma og krabbamein.
Reynsla af afglæpavæðingu marijúana á þeim stöðum í Bandaríkjunum, þar sem það hefur verið reynt, hefur ekki sýnt fram á aukna neyslu á því eða öðrum vímuefnum.