Dr. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fyrsta bylgja kórónuveirufaraldursins sé afstaðin hér á landi og heilbrigðiskerfið, samfélagið allt og yfirvöld hafi staðist prófið. Allt sé klárt fyrir næstu bylgju sem mögulega komi síðar í sumar eða haust og þá sé planið að geta tekist á við faraldurinn af festu með þeim aðferðum sem komin sé reynsla á og vonandi þurfi þess vegna ekki að fara aftur á byrjunarreit með fjöldatakmörkunum, víðtækum lokunum og fleiru sem grípa þurfti til í mars síðastliðnum.
Sóttvarnalæknir er gestur Björns Inga Hrafnssonar í Hlaðvarpi Viljans. Í ítarlegu samtali gerir hann upp undanfarnar vikur; ræðir þær aðgerðir sem gripið var til, þá mögulega sem til skoðunar eru varðandi opnun landsins fyrir ferðamönnum, möguleika á tónleika- og viðburðahaldi og árangur Íslands í samanburði við aðrar þjóðir.
Hann segir að gæta verði þess til framtíðar að þeir sem tilheyri viðkvæmum hópum gagnvart mögulegum sýkingum, eigi þess einnig kost að sækja söfn, leiksýningar, tónleika og aðra viðburði og rétt eins og gætt sé að aðgengi fatlaðra við slíkar aðstæður verði að tryggja ákveðin svæði fyrir viðkvæma hópa og aldraða með tilliti til tveggja metra reglunnar. Aðrir þurfi ekki jafn miklar ráðstafanir.
Hann gerir sérstaklega að umtalsefni frábært samstarf íslenskra heilbrigðisyfirvalda við Íslenska erfðagreiningu og hælir Kára Stefánssyni og fyrirtækinu á hvert reipi.
Þá berst talið einnig að væntanlegum starfslokum hans, en Þórólfur verður 67 ára nú í haust.
Viðtalið er aðgengilegt á öllum helstu Hlaðvarpsveitum, svo sem Podcast hjá Apple og Spotify.