Fyrsta dauðsfallið af völdum COVID-19 síðan í fyrstu bylgju farsóttarinnar

„Einn sjúklingur lést á síðasta sólarhring á Landspítala vegna Covid-19.“

Þannig hefst stutt orðsending sem birtist á vef Landspítalans í morgun, þar sem fjölskyldu viðkomandi er vottuð samúð.

Þetta er fyrsta dauðsfallið hér á landi af völdum COVID-19 síðan í fyrstu bylgju farsóttarinnar í vetur og vor. Alls hafa því ellefu látist af völdum sjúkdómsins hér á landi.

Landspítali er nú á hættustigi vegna faraldurs COViD-19. Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega. Allar ákvarðanir vegna sóttvarna og takmarkana þeim tengdar eru teknar á þeim miðlæga vettvangi og eru starfsmenn og stjórnendur hvattir til að kynna sér nýjustu ákvarðanir á degi hverjum á innri upplýsingavefjum spítalans.

Nýjustu tilkynningarnar eru þessar:

1. Skimanir starfsmanna og sjúklinga í geðdeildahúsi við Hringbraut

Í dag verður hluti starfsmanna og sjúklinga í geðdeildahúsi skimaður fyrir COVID-19 eftir að upp kom smit á einni deild, fíknigeðdeild. Ákvörðun um skimun er í höndum farsóttanefndar og rakningateymis. Fíknigeðdeildin verður lokuð um tíma en áfram hefðbundin þjónusta í geðþjónustukjarna fyrir þá sem þurfa á henni að halda.

2. Á Landspítala eru nú:

26 sjúklingar inniliggjandi vegna COVID19 – 55 alls frá upphafi þriðju bylgju faraldursins
– Þar af 3 á gjörgæslu og tveir í öndunarvél
1.179 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19 göngudeildar, þar af 186 börn
62 starfsmenn eru í sóttkví A
19 starfsmenn eru í einangrun