„Ég er á móti þriðja orkupakka ESB, og ástæðan er einföld, ég er þeirrar skoðunar að Ísland eigi aldrei að gefa eftir eignarhald og stjórnun á auðlindum. Það á við um sjávarauðlindina og orkuauðlindirnar,“ sagði Jón Baldvin Hannibalsson, f.v. utanríkisráðherra, en blaðamaður Viljans hitti hann fyrir á fyrirlestri Heimssýnar í Háskóla Íslands í gær.
Viljanum lék forvitni á að heyra sjónarmið Jóns Baldvins varðandi EES-samninginn sem fagnar nú aldarfjórðungs afmæli og þriðja orkupakkann, en innleiðing hans var samþykkt í ríkisstjórn í morgun.
„Ef við bindum okkur við orkupakkann, sem var ekki partur af upphaflega EES-samningnum, þá munum við að lokum missa stjórn á auðlindinni, þetta verður fyrsta skrefið í opnun að einkavæðingu þar, og þetta mun hafa í för með sér mikla hagnaðarvon hjá fjárfestum og einstökum slíkum aðilum, en er andstætt hagsmunum almennings, vegna þess að það mun leiða til stórhækkaðs orkuverðs. Ég geld mjög varhug við þessu kerfi og tek ekki mikið mark á „blaðrinu“ um aukna samkeppni og lægra verð, í ljósi reynslunnar af einkavæðingu í grannlöndum okkar,“ bætir hann við.
Ekki má gleyma því hversvegna samningurinn var gerður
Um það hvort EES samningurinn sé að syngja sitt síðasta, sagði Jón Baldvin:
„Færa má rök fyrir því að á síðastliðnum 25 árum hafi orðið miklar breytingar, þetta er ekki lengur jafnoka tvístoða kerfi eins og við sömdum um á sínum tíma, og fleira má finna til. En menn eru bara búnir að gleyma því um hvað EES snerist hvað Ísland varðar, og án þess hefðum við aldrei orðið aðilar að því, en það er fiskurinn.“
ESB hafi haft „alveg múraða“ stefnu, enginn markaðsaðgangur nema ESB fengi aðgang að auðlindum. ESB vildi varna Íslandi aðgangi að markaði sambandsins með fisk, nema ESB fengi að veiða í íslenskri lögsögu.
Innan EFTA var verið að semja um markaði með iðnaðarvörur og að hluta til þjónustu, en ekki sjávarafurðir.
„Við sögðum strax í upphafi við EFTA ríkin: „Ef við tökum ekki upp fríverslun með sjávarafurðir, innan EFTA, og gerum fríverslun með sjávarafurðir að sameiginlegu samningsmarkmiði EFTA ríkjanna [gagnvart ESB], þá verðum við ekki með.“
Tell me another one!
Hann segir þetta hafa verið mjög erfitt mál innan EFTA á sínum tíma, og að það gleymist oft í íslenskum sögubókum að segja takk við sænska forsætisráðherrann, Ingvar Carlsson, sem hjó á þann hnút og sagði: „Við getum ekki látið minni hagsmuni eyðileggja meiri, við skulum bara samþykkja það að gera fríverslun með fisk að veruleika innan EFTA, og að sameiginlegu samningsmarkmiði.
„Hefði þetta ekki tekist, þá hefðu Íslendingar aldrei samþykkt EES samninginn,“ segir Jón Baldvin, og segir að svo geti menn bara lagt mat á það hversu mikið gagn samningurinn gerði, en hann hafi verið „afburðalyftistöng“ fyrir íslenskt hagkerfi.
Góðærið sem fylgdi á eftir árinu 1995, megi í stórum dráttum rekja til EES samningsins, að sögn Jóns Baldvins.
„Ef við viljum svo svara spurningunni um það hvort EES samningurinn sé búinn að vera, eða hvort við viljum breyta honum, þá kemur spurningin um hvað eigi að koma í staðinn. Hvað á að koma í staðinn fyrir allan ávinninginn, sem við fengum með stuðningi hinna, hafa menn virkilega trú á því að Ísland, 350 þúsund manna samfélag, fái í tvíhliða samningum við ESB, jafngóðan árangur og í gegnum EES? Tell me another one!“