Fyrsta vinnustöðvunin: Þrif falla niður á hótelum og veitingastöðum 8. mars

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar / Mynd: Sósíalistaflokkurinn.

Fundur samninganefndar Eflingar-stéttarfélags haldinn í kvöld hefur samþykkt að láta fara fram almenna leynilega rafræna allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar meðal þeirra félagsmanna Eflingar sem vinna skv. kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi sem rann út þann 31.desember 2018.

„Vinnustöðvunin ef samþykkt verður, mun taka til allra þrifa, hreingerninga og frágangs herbergja og annarrar gistiaðstöðu þ.m.t. á göngum, salernum og í sameiginlegu rými, á öllum hótelum og gistihúsum á því félagssvæði Eflingar sem tekur til starfa á veitinga- og gistihúsum sem er lögsagnar umdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Kjósarsýslu að Botnsá, Grímsnes og Grafningshrepps, Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfus auk Hafnarfjarðar og Garðabæjar,“ segir á vef Eflingar.

Lagt er til að vinnustöðvun ofangreindra félagsmanna verði tímabundin og hefjist klukkan 10:00 að morgni 8. mars 2019 og ljúki klukkan 23:59 þann 8. mars 2019 nema kjarasamningar hafi tekist fyrir þann tíma.

Atkvæðagreiðslan hefst kl. 10 að morgni 25.2 2019 og lýkur kl.22:00, fimmtudaginn 28.2 2019.