Fyrsti forsetinn frá hægri í 80 ár

„Nú árið 2024, 80 árum eftir að forseti lýðveldisins var fyrst kjörinn, gerist það að þjóðkjörinn forseti kemur í fyrsta sinn af hægri væng stjórnmálanna til Bessastaða,“ skrifar Björn Bjarnason, fv. ráðherra á vefsíðu sinni í dag í tilefni af sigri Höllu Tómasdóttur í forsetakosningunum.

„Ég óska henni innilega til hamingju. Hennar bíður erfitt verkefni sem hún segist ætla að leysa af hendi með því að sameina þjóðina að baki sér. Að kvöldi kjördags minntist hún sérstaklega á unga fólkið þegar hún þakkaði þeim sem börðust fyrir hana. Hún hefði einnig átt að þakka þeim forystumönnum sem lögðu öðrum frambjóðendum lið fram á síðasta dag en hvöttu svo kjósendur á síðustu stundu til að kjósa Höllu T. í því skyni að koma í veg fyrir að Katrín Jakobsdóttir sigraði.

Greinendur úrslitanna eru sammála um að margir hafi ráðstafað atkvæði sínu á þennan veg þegar á hólminn var komið. Úr úrslitum kosninganna í samanurði við skoðanakannanir megi lesa að ýmsir þeirra sem í könnunum lýstu yfir stuðningi við Höllu Hrund Logadóttur eða Baldur Þórhallsson hafi í kjörklefanum sett kross við nafn Höllu Tómasdóttur og því í reynd kosið gegn Katrínu Jakobsdóttur,“ segir Björn ennfremur.

Stefán Ólafsson, prófessor emeritus, tekur í sama streng á fésbókinni, þar sem hann segir:

„Hægri forseti – í boði vinstri manna, sem vildu refsa Katrínu Jakobsdóttur fyrir að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum! Nokkuð mótsagnarkennt, eiginlega súrrealískt hjá þeim…“

Halla Tómasdóttir var á árum áður framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og gegndi trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, var m.a. varamaður í bankaráði Seðlabankans, tilnefnd af Sjálfstæðisflokki. Hún hefur undanfarin ár gegnt starfi forstjóra BTeam í New York.