Gælur við samþykkt á orkupakka 3 stofnar sjálfstæði Íslands í hættu

Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri.

„Það verður augljósara með hverjum deginum, sem líður, að það er ákveðin lífshætta fólgin í því fyrir sjálfstæðar þjóðir að tengjast ESB, hvort sem er með aðild eða öðrum hætti.“

Svo sterklega kemst Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, að orði í pistli á vefsíðu sinni.

Hann segir Bretland skýrasta dæmið um þetta. Ekki fari á milli mála að, Evrópusambandið hafi unnið að því að gera útgöngu eins erfiða fyrir Breta og kostur er. Í því sambandi hafi embættismannakerfið í Brussel spilað á klofning innan Bretlands og svo í einstökum stjórnmálaflokkum, eins og Íhaldsflokknum. Það hljóti að vera orðið álitamál, hvort hann lifir þetta af.

Og það er mikill þungi í þeim orðum Styrmis sem á eftir koma:

„Það er lítið talað um reynslu Eystrasaltsríkjanna af aðild en augljóst að þau sóttu um aðild öryggis síns vegna. Nágranninn stóri lætur þau ekki í friði. En þegar talað er við almenna borgara frá þessum ríkjum kemur í ljós að þeir upplifa aðild ríkjanna að ESB á þann hátt, að hún sé að fara mjög illa með þessi ríki.

Íslendingar, sem koma til Grikklands eru á einu máli um að þar sé ástandið hrikalegt og að meðferð stóru ríkjanna í Evrópu á Grikkjum megi einna helzt líkja við meðferð evrópsku nýlenduveldanna á sínum tíma á nýlendum þeirra í öðrum heimshlutum.

Fyrrum leppríki Sovétríkjanna í Austur-Evrópu, sem nú eru aðilar að ESB eru í víðtækri uppreisn gegn Brussel.

Þeir þingmenn og ráðherrar stjórnarflokkanna, sem nú gæla viðað samþykkja orkupakka 3 ættu að hugsa sitt mál vandlega. Þeir eru með þeim gælum að stofna sjálfstæði Íslands í hættu.“