Þótt mögulegt sé að hafna upptöku nýrrar löggjafar ESB í EES-samninginn á lokastigum málsmeðferðar er þriðji orkupakkinn ekki mál af því tagi að réttlætanlegt sé að grípa til slíkra neyðarráðstafana. Þetta er mat Carls Baudenbachers, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, en hann kynnir utanríkismálanefnd Alþingis álitsgerð sína síðar í dag. Að áliti hans gæti það teflt aðild Íslands að EES-samningnum í tvísýnu verði þriðja orkupakkanum hafnað.
Í áliti Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík kemur fram að ljóst sé að heimild íslenska ríkisins til að hafna afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara og upptöku gerðar í EES-samninginn feli í sér algjört neyðarúrræði. Synjun íslenska ríkisins um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara fæli í sér fordæmalausa stöðu sem hefði í för með sér mikla lagalega og pólitíska óvissu og setti framkvæmd EES-samningsins í uppnám.
Þá kynni synjunin að leiða til lagalegrar óvissu fyrir fyrirtæki og neytendur.
Í umræðum um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn) hefur komið fram það sjónarmið að rétt væri að hafna innleiðingunni og leita eftir frekari undanþágum með nýrri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í 25 ára sögu EES-samningsins hefur aldrei komið til þess að ríki hafi neitað að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Því þótti Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra rétt að leita álits sérfræðinga um afleiðingar þess að synja ákvörðun nefndarinnar staðfestingar.
Utanríkismálanefnd Alþingis hefur nú fengið í hendur álit frá annars vegar Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, og hins vegar Alþjóða- og Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík.
Carl Baudenbacher var dómari við EFTA-dómstólinn um árabil og forseti dómstólsins þegar Icesave-dómurinn féll Íslandi í vil, en hann kemur fyrir utanríkismálanefnd á fundi síðar í dag og kynnir álitsgerð sína.
Gæti leitt til viðbragða öðrum til varnaðar
Í álitsgerð hans segir að þar sem engum fordæmum sé til að dreifa leiki vafi á afleiðingum þess ef Ísland hafnaði að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara sínum og kæmi þannig í veg fyrir upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn. Það gæti leitt til viðbragða af hálfu ESB innan sameiginlegu EES-nefndarinnar, í samræmi við 102. grein EES-samningsins, öðrum til varnaðar.
Á sínum tíma fór Ísland fram á og fékk ákveðnar undanþágur vegna þriðja orkupakkans og var þá farið í öllu eftir umboði ríkisstjórna sem þá voru við völd. Öllum þeim sjónarmiðum sem uppi voru á þeim tíma er varða sérstöðu Íslands var því komið á framfæri við undirbúning málsins. Að mati Bautenbacher veikir það hins vegar málstað Íslands varðandi að fá undanþágur á þessu stigi að Ísland hafi til dæmis hvorki andmælt því að þriðji orkupakkinn væri EES-tækur né mótmælt þegar EES-ráðið kallaði eftir því í nóvember 2014 að upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn yrði flýtt. Þá hafi Ísland haft tækifæri til að leggja verulega til málanna í ákvörðunarferlinu og ekki staðið í vegi fyrir því að orkupakkinn yrði tekinn upp í EES-samninginn heldur aðeins beitt stjórnskipulegum fyrirvara.
Í álitsgerðinni segir ennfremur að Ísland beri ákveðna skyldu gagnvart hinum EFTA-ríkjunum innan EES, Noregi og Liechtenstein. Þau hafi aflétt stjórnskipulegum fyrirvörum sínum og vænti því þess að Ísland geri slíkt hið sama ella öðlist þriðji orkupakkinn ekki gildi gagnvart neinu þeirra. Baudenbacher telur litlar líkur á að sameiginlega EES-nefndinn fallist á að taka upp málið að nýju.
Úkraínsk leið mögulega í boði
Ef Ísland dregur sig út úr þriðja orkupakkanum gæti það því, að mati Baudenbachers, orðið til þess að aðildinni að EES-samningnum yrði, til lengri tíma litið, teflt í tvísýnu. Reynsla annarra Evrópuríkja utan EES sýni að Íslandi stæði þá aðeins til boða svonefnd „úkraínsk leið“ hefði það áhuga á samstarfi við ESB. Formlega væru deilumál þá leyst með gerðardómi þar sem ESB gæti áfrýjað málum einhliða til dómstóls Evrópusambandsins.
Carl Baudenbacher segir í niðurlagi samantektar álitsgerðar sinnar: „Með tilliti til alls þessa verður að draga þá ályktun að fyrir hendi sé sá möguleiki að hafna upptöku nýrra laga ESB í EES-rétt. Hins vegar er það mál sem hér er til umfjöllunar ekki viðeigandi tilefni til að grípa í neyðarhemilinn.“
Álitsgerð Carls Baudenbacher.
Samantekt á álitsgerð Carls Baudenbacher.
Álitsgerð Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík.