Gagnrýna harðlega aðgerðir Tyrkja, en minnast ekkert á ákvörðun Trumps

Frá fundi utanríkisráðherra Íslands og Bandaríkjanna í Washington á dögunum.

Íslensk stjórnvöld gagnrýna harðlega hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi og hafa komið þeirri afstöðu sinni á framfæri við tyrknesk yfirvöld með formlegum hætti. Í yfirlýsingu utanríkisráðherra, fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar, en hins vegar ekki minnst á yfirlýsingar Trumps bandaríkjaforseta eða ákvörðun hans um að heimila Tyrkjum að sækja fram við landamærin að Sýrlandi, þar sem Kúrdar njóta ekki lengur skjóls bandamanna sinna og sæta því árásum Tyrkjahers sem þegar í gær leiddi til mannfalls.

„Hernaðaraðgerðirnar samræmast ekki alþjóðalögum og er þess krafist að Tyrkir hætti aðgerðunum þegar í stað og fylgi alþjóðalögum í hvívetna. Hernaður sem beinist að almennum borgurum og veldur manntjóni, eins og fregnir herma, er fordæmdur,“ segir í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda.

Þar segir ennfremur að íslensk stjórnvöld hafi þungar áhyggjur af því að yfirstandandi hernaðaraðgerðir Tyrkja magni enn frekar ófriðarbálið á svæðinu og geri að engu þann árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu á Twitter í gær þar sem hann lýsti miklum áhyggjum af hernaðaraðgerðum Tyrklandsstjórnar gegn Kúrdum á sýrlensku yfirráðasvæði og kallaði eftir vopnahléi á svæðinu.