Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur verið nokkuð gagnrýnd í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum í dag fyrir að lýsa því yfir að hún hlakki mikið til þess að fara í verkfall á morgun.
„Ég er mjög ánægð með að geta farið í verkfall. Ég hlakka mikið til,“ sagði hún við Fréttavef Morgunblaðsins eftir að dómurinn féll og bætti við að hann hefði mikla þýðingu.
„Morgundagurinn er fyrsti dagurinn í mikilvægri upprisu láglauna- og verkakvenna á Íslandi sem enginn hefur í raun tekið að sér að berjast neitt sérstaklega fyrir. Enginn hefur tekið að sér að gæta sérstaklega hagsmuna okkar,“ sagði hún.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir mikilvægt að fólk vandi orðalag sitt þegar það ræðir um verkföll.
„Verkföll valda miklu tjóni í samfélaginu öllu og skapa álag á þeim vinnustöðum sem verkfallið tekur til. Ég legg áherslu á að við ræðum þessi mál af yfirvegun og mér finnst ekki við hæfi að fólk hlakki til verkfalla,“ segir Halldór Benjamín í samtali við mbl.is.
Hér að neðan má sjá nokkur ummæli fólks á samskiptamiðlum um málið.
Sumum hlakkar til jólanna en öðrum hlakkar til ….#verkfallhttps://t.co/FCV7Ql2yqa
— Sigurður Svavarsson (@Siggivs) March 7, 2019
Þegar fólk uppfyllir æskudrauma sína – alveg sama hversu bilaðir draumarnir voru. #Verkfall pic.twitter.com/av1TfbYRXn
— Kristinn Þór (@kiddi_s) March 7, 2019