Hjónin Jón Baldvin Hannibalsson, fv. utanríkisráðherra, og Bryndís Schram fv. leikkona og skólameistari, skrifa opið bréf til útvarpsstjóra í Morgunblaðinu í dag þar sem þau gefa honum, starfsmönnum RÚV og viðmælendum viku til að biðjast afsökunar annars verði þeim stefnt.
Í löngu bréfi, þar sem þau rekja ásakanir í sinn garð og ranghermi, svo þau kalla svo, segjast þau ætla að stefna Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra, fyrir hönd Ríkisútvarpsins, og starfsmönnum hans, sem og viðmælendum, fyrir rétt, til þess að fá meiðyrði, ranghermi og tilhæfulausar ásakanir, dæmdar dauðar og ómerkar. Og að Ríkisútvarpinu verði skylt að bæta þolendum þessarar ófrægingarherferðar það tjón, sem þau hafa orðið fyrir af völdum RÚV.
Segja þau tjónið sem þetta mál hafi valdið þeim og fjölskyldum þeirra vera óbætanlegt.
„Spyrja má, hvernig áheyrendur geti myndað sér fordómalausa skoðun á umfjöllunarefni, ef fréttamenn bjóða þeim bara upp á einhliða frásögn annars deiluaðila; velja það eitt til birtingar úr gögnum máls, sem hentar fyrirframgefinni niðurstöðu; stinga undir stól gögnum, sem sanna, að fréttamaður og/ eða viðmælandi fer með rangt mál; eða ef fréttamaður hunsar vottfestan framburð vitna?“ segir ennfremur í bréfinu.