„Það gengur ekki að stéttarfélög séu að stofna leyniþjónustur, það má láta Stalín alveg um það,“ segir Einar Gautur Steingrímsson, hæstaréttarlögmaður, í samtali við Viljann.
Var hann þar að vísa í ráðleggingar á vefsíðu Eflingar, um upplýsingasöfnun félagsmanna um samstarfsmenn og vinnuveitanda, sem Viljinn greindi frá í vikunni.
Þar segir meðal annars:
„Til að byrja með er ráðlegt að tala við vinnufélaga þína um kjör og aðstæður, og gæta þess að halda þessum samræðum og tali um stéttarfélög frá yfirmönnum.
Haltu vinnudagbók og taktu niður nöfn og vandamál fólksins sem þú vinnur með. Þar getur þú líka skráð glósur af fundum, breytingar á vaktaplani, fyrirmæli frá yfirmönnum og svo framvegis. Þegar þú punktar niður atburði er gott að skrá eftir reglunni: hver, hvenær, hvar og hvers vegna. Það borgar sig líka að geyma minnisblöð og launaseðla frá fyrirtækinu.“
Viljinn hafði einnig samband við Persónuvernd vegna málsins og þær upplýsingar fengust hjá stofnuninni, að ef stéttarfélög eða aðrir væru að láta safna og vinna persónugreinanlegar upplýsingar, þá verði að fara að lögum, gæta hófs, öryggis og heimilda.
Fræðsla um slíkt þurfi að vera góð svo að fólk átti sig á því hvað sé um að vera. Almennt þurfi einnig að upplýsa fólk, sem verið er að safna og vinna persónuupplýsingar um, hvað sé verið að gera svo þau fái gætt réttar síns.
Engar slíkar leiðbeiningar er að finna á umræddri vefsíðu Eflingar, enn sem komið er.