Gerir ráð fyrir að Ágúst Ólafur snúi aftur í þingið í febrúar

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, snýr væntanlega aftur til þingstarfa í næsta mánuði, að sögn Loga Einarssonar, formanns flokksins.

Þingmaðurinn fór í tveggja mánaða leyfi eftir að siðanefnd Samfylkingarinnar áminnti hann fyrir kynferðislega áreitni.

Logi, segir í forsíðuviðtali við Mannlíf, sem kom út í dag, að hann trúi á fyrirgefninguna í þessu máli.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

„Ég get ekki talað fyrir hvern einasta félagsmann í Samfylkingunni en ég að minnsta kosti trúi því að fólk, þó að því verði jafn alvarlega á og geti hrasað sem er nú einu sinni saga mannsins frá örófi alda, eigi að geta fengið fyrirgefningu ef það raunverulega iðrast og leitar leiða til að bæta ráð sitt. Það hefur hann verið að gera þannig að þetta er í höndunum á honum.“

Logi er í viðtalinu spurður hvort slík mál eigi heima á borði flokksstofnana eins og siðanefndar Samfylkingarinnar, hvort ekki sé hreinlegast að vísa þeim til þar bærra yfirvalda.

„Samkvæmt 4. grein siðareglna okkar þá er það þannig að ef mál eru líkleg til að varða við refsilöggjöfina þá eru þolendur hvattir til og hjálpað að úrskurðarnefndinni að leita með málið til lögreglu. Ef að málið varðar börn eru þau send beint til barnaverndanefndar. Þannig að Samfylkingin er ekkert að halda inni hjá sér neinum málum er varða lögbrot. Það er einungis verið að fjalla um mál sem eru ósæmileg, ósiðleg. Í Samfylkingunni eru 16-17 þúsund manns, þar er hvorki verra né betra fólk heldur en annars staðar í samfélaginu. Það segir sig sjálft að í svona stórum félagsskap þá koma upp erfið mál,“ segir Logi.