Gerir samkomulag þvert á samþykktir Framsóknarflokksins

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra, gerði í dag samkomulag fyrir hönd ríkisins við Reykjavíkurborg, um flutning innanlandsflugs úr Vatnsmýrinni yfir í Hvassahraun, að því gefnu að rannsóknir á veðurfari, vatnsverndarsvæðum og fleiru verði hagfelldar. Það er þvert gegn samþykkt síðasta flokksþings Framsóknarflokksins og stríðir gegn stefnu framboðs Framsóknarflokksins og flugvallarvina, sem buðu fram sameiginlegan lista í borgarstjórnarkosningunum í fyrrasumar.

Í samþykkt síðasta flokksþings Framsóknarflokksins, sem haldið var dagana 9.-11. mars í fyrra, sagði:

„Reykjavíkurflugvöllur er óumdeilanlega miðstöð innanlands- og sjúkraflugs. Á meðan ekki kemur fram raunhæfur og jafnhentugur kostur í stað Reykjavíkurflugvallar er brýnt að ráðast sem fyrst í að lagfæra afgreiðslu og móttöku farþega.

Reynslan sýnir að óbreyttur Keflavíkurflugvöllur veitir ekki nægjanlegt flugöryggi og nothæfi vallarins er skert í óveðri. Með stóraukinni flugumferð á síðustu árum og áfram til framtíðar er mikilvægt að hugað verði að öðrum fullbúnum alþjóðaflugvelli sem jafnframt verði varavöllur Keflavíkurflugvallar.

Framsóknarflokkurinn telur hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni óraunhæfar og telur hagkvæmara væri að efla bæði Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll í þeirra hlutverkum.

Miðstöð innanlandsflugs á Íslandi er í Reykjavík og millilandaflugs á Suðurnesjum. Svæðisskipulag Suðurnesja sem samþykkt hefur verið af öllum sveitarfélögum svæðisins gerir ekki ráð fyrir flugstarfsemi í Hvassahrauni. Hvassahraun liggur á vatnsverndarsvæði á svokölluðu fjarsvæði vatnsverndar fyrir Suðurnes. Við skilgreiningu fjarsvæðis er litið til þátta eins og misgengis og sprungna þar sem gæta þarf sérstakrar varúðar og því eru framkvæmdir þar takmörkum settar. Áætlað er að flugvallarframkvæmdir í Hvassahrauni geti kostað yfir 200 milljarða króna. Fjármunum er mun betur varið til vegamála þar sem stórátaks er þörf.“

Nú aðeins hálfu öðru ári síðar hefur formaður Framsóknarflokksins semsé samþykkt flutning flugvallarins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, yfir á stað sem flokksþing hans eigin flokks, taldi óraunhæft flugvallarstæði og allt of dýra framkvæmd.