Gerjun á flugmarkaði: Ekki meiri samkeppni í áraraðir

„Það er aðeins erfitt að átta sig á þeim upplýsingum sem eru að berast um hið nýja WOW. Það hefur verið lítið samræmi í því sem fram hefur komið og það er í raun lítið sem bendir til að undirbúningur sé langt á veg kominn,“ segir Jón Karl Ólafsson, fv. forstjóri Icelandair, þegar Viljinn leitaði álits hjá honum um nýjustu hræringar á flugmarkaði.

Eins og skýrt var frá í gær, mun nýtt íslenskt lággjaldaflugfélag undir merkjum Play hefja flug innan skamms til nokkurra áfangastaða og hefur verið auglýst eftir starfsfólki. Jafnframt stendur til að endurreist WOW fari í loftið fyrir áramót.

Jón Karl bendir á að endurreist WOW ætli samkvæmt nýjustu upplýsingum að horfa meira til fraktflugs, en engar nánari skýringar hafi þó komið fram á þeim áformum.

Jón Karl Ólafsson fv. forstjóri Icelandair.

„Hvað varðar nýja félagið Play sem var kynnt í gærmorgun, er ljóst, að menn eru komnir langt með undirbúning. Það kemur reyndar aðeins á óvart að ekki komi skýrar fram hvert eigi að fljúga og hvenær starfsemin muni hefjast,“ segir Jón Karl ennfremur.

„Það er mikil samkeppni á markaði og hún hefur í raun ekki verið meiri í áraraðir. Mikill fjöldi erlendra flugfélaga flýgur nú reglulega til Íslands og því er mjög mikilvægt að skapa sér stöðu á markaði sem fyrst. Það er greinilegt að verið er að horfa mikið til WOW með hugmyndir um útlit og framsetningu.

Menn verða að halda vel á spöðum til að ná árangri í þessari samkeppni og því má fyrst og fremst óska þeim alls hins besta í framtíðinni.“