Gert ráð fyrir 8% samdrætti landsframleiðslu í ár

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans.

Miðað við nýjustu hagvaxtarspár er gert ráð fyrir 8% samdrætti landsframleiðslu í ár. Aðgerðir Seðlabanka Íslands og stjórnvalda vegna COVID-19-farsóttarinnar hafa aukið svigrúm fjármálafyrirtækja til að styðja við heimili og fyrirtæki á þessum krefjandi tímum.

Þetta kemur fram í nýrri yfirlýsingu Fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans sem birt var nú í morgun.

„Eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna þriggja er sterk. Þó að óvissa ríki um raunvirði útlánasafns fjármálafyrirtækja við núverandi aðstæður bendir sviðsmyndagreining Seðlabankans til þess að eiginfjárstaða þeirra standist álagið vel. Mikilvægt er að hraða endurskipulagningu útlána eins og kostur er. Greiðsluhlé ein og sér munu þó ekki leysa vanda þeirra lántakenda sem verst eru staddir.

Fjármálastöðugleikanefnd skal ársfjórðungslega ákveða gildi á sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki. Í samræmi við yfirlýsingu nefndarinnar frá 18. mars sl. hefur nefndin ákveðið að halda aukanum óbreyttum næstu 9 mánuði,“ segir þar ennfremur.

Nefndin segir í yfirlýsingu sinni, að hætta sé á að slakara aðhald stjórntækja Seðlabankans geti hækkað eignaverð og aukið líkur á að kerfisáhætta myndist í efnahagslífinu í heild eða í afmörkuðum geirum.

Nefndin ítrekar að hún er reiðubúin að beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika í kjölfar COVID-19-faraldursins.