Geta sýktir en einkennalausir verið smitberar eða ekki?

Dr. Þórólfur Guðnason Sóttvarnalæknir.

Athygli vakti á blaðamannafundi Sóttvarnalæknis og Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra í dag, að Sóttvarnalæknir tiltók oftar en einu sinni að þeir sjúklingar með Kórónaveiruna sem væru einkennalausir gætu ekki smitað aðra. Þess vegna væri ekki talin ástæða til að gera ráðstafanir varðandi flugfarþega frá skilgreindum áhættusvæðum, enda þótt þeir ættu að fara í sóttkví á eigin vegum við heimkomu.

Erlendir fjölmiðlar og læknar hafa haldið hinu gagnstæða fram undanfarið og tilgreint dæmi af fólki sem virðist hafa borið veiruna áfram til annarra án þess að finna nokkru sinni sjálft fyrir einkennum.

Í grein í hinu virta læknariti the New England Journal of Medicine á dögunum halda kínverskir læknar því fram að einkennalausir geti verið smitberar.

Því er einnig haldið fram á vísindasíðunni Science Alert, en þar er vísað til rannsóknar kínverskra vísindamanna, á ungri konu sem virðist hafa smitað fimm einstaklinga úr eigin fjölskyldu af Kórónaveirunni án þess að finna nokkru sinni sjálf fyrir líkamlegum einkennum hennar.

Í kjölfar blaðamannafundar Sóttvarnalæknis beindi Viljinn því fyrirspurn til Þórólfs Guðnasonar um þetta misræmi, sem sannarlega getur skipt miklu máli um það hvort tekst að hefta útbreiðslu veirunnar og koma í veg fyrir að hún berist hingað til lands.

Þórólfur svaraði fyrirspurninni þannig:

„Eftir þeim upplýsingum sem við styðjumst við frá Sóttvarnastofnun Evrópu og WHO þá er þetta ekki staðfest. Margir sem áttu að hafa verið einkennalausir voru með einkenni þegar betur var að gáð.“

Hann bætir við að meðan þetta er ekki alveg klárt sé ekki hægt að halda öðru fram.

„Þetta kann þó að breytast,“ segir hann í svari til Viljans.