„Þegar skæruverkföll, sem augljóslega stangast á við lagaumhverfið svo ekki sé talað um anda þess, bætast svo við geta vart verið verri skilyrði til þess að bjarga megi flugfélagi og þúsund starfsmönnum þess og enn fleiri tengdum og afleiddum störfum. Þessi heimatilbúningur skellur nú eins og vondur vellingur í andlit þeirra sem í varnarbaráttunni standa,“
Þetta segir Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra, í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag. Blaðið skýrir frá því að Skúli Mogensen, forstjóri WOW-air, hafi haft óformlega samband við forsvarsmenn Icelandair á fimmtudag og viljað taka aftur upp þráðinn um sameiningu félaganna, en stjórn Icelandair hafi ekki ljáð máls á því.
Fyrir vikið hafa nú ákvæði eigenda skuldabréfa á félagið virkjast að nýju, en þeir höfðu áður samþykkt skilmálabreytingar að kröfu Indigo Partners, að því gefnu að gengið yrði frá kaupum og lánveitingum Indigo Partners til WOW-air fyrir febrúar lok.

Það tókst ekki, þrátt fyrir maraþonfundi, og þótt samningsaðilar hafi gefið sér aukinn frest út mars til að ljúka málum, dylst engum að framtíð flugfélagsins hangir á bláþræði og að mikið er undir.
Frískleiki, hugmyndaauðgi og áræðni
Davíð segir í Reykjavíkurbréfinu, að ekki fari á milli mála að flugfélagið WOW eigi í vök að verjast núna.
„Það eru vond tíðindi en ekki alveg ný. Margir hafa horft á ævintýralegan vöxt félagsins með undrun og stolti í senn og það hefur óneitanlega verið í augum þeirra eins konar táknmynd fyrir frískleika, hugmyndaauðgi og áræðni. Þegar slær í baksegl hættir okkur til að horfa til annarra atriða, sem eru spegilmynd þeirra sem nefnd voru. Skort hafi eðlilega varfærni, áhættufælni þurfi að vera í bland við djörfung og hikleysi og margt af þessu tagi er tínt til. En þær athugasemdir flokkast óneitanlega að nokkru leyti undir handhæga eftiráspeki, sem allir gera sig einhvern tíma seka um,“ segir hann.

Bendir hann á að sveigjanleiki og viðbragðshraði sjálfstæðrar myntar hafi lagt grunn að ferðaiðnaðinum sem burðaratvinnugrein hér eftir fall bankanna og annars sem kjölsog þess tók.
„Ferðaiðnaðurinn er ekki með gróinn grundvöll til áratuga eins og er raunin í mörgum löndum sem við erum tekin að keppa við, og eru þess vegna ekki eins varnarlaus og við fyrir óvæntum sveiflum, svo ekki sé talað um heimatilbúna eyðileggingarherferð.
Það er vart hægt að hugsa sér harðdrægari skilyrði til þess að bjarga ungu framsæknu flugfélagi fyrir horn en nú eru til þess þegar fallexi hangir yfir slíkum rekstri. Og þá er ekki aðeins verið að tala um hinn stórskaðlega skæruhernað sem boðaður hefur verið, sem óneitanlega minnir meir á skemmdarverk gagnvart þjóðfélaginu í heild en á venjulega vinnudeilu síðari áratuga.

Aðdragandinn einn og þær hótanir sem þá lágu í loftinu eitruðu svo allt andrúmsloft að mjög hefur dregið úr vilja og getu fyrirtækja á fjölmörgum sviðum og veltan á markaði minnir helst á snigil sem hörfar inn í kuðung sinn í nauðvörn.
Fólkið í landinu fælist frá fjárfestingum, stórum og smáum með tilheyrandi afleiðingum. Ekki er til það verkalýðsfélag í heiminum sem skapað hefur ný störf fyrir almenning og er ekki gerð krafa til þess. En þegar starfaeyðir er komin efst á verkefnalista slíkra félaga þá er illa komið.
Þegar skæruverkföll, sem augljóslega stangast á við lagaumhverfið svo ekki sé talað um anda þess, bætast svo við geta vart verið verri skilyrði til þess að bjarga megi flugfélagi og þúsund starfsmönnum þess og enn fleiri tengdum og afleiddum störfum.
Þessi heimatilbúningur skellur nú eins og vondur vellingur í andlit þeirra sem í varnarbaráttunni standa,“ segir í Reykjavíkurbréfinu.