Geta vart verið verri skilyrði til þess að bjarga megi flugfélagi

„Þegar skæruverkföll, sem augljóslega stangast á við lagaumhverfið svo ekki sé talað um anda þess, bætast svo við geta vart verið verri skilyrði til þess að bjarga megi flugfélagi og þúsund starfsmönnum þess og enn fleiri tengdum og afleiddum störfum. Þessi heimatilbúningur skellur nú eins og vondur vellingur í andlit þeirra sem í varnarbaráttunni standa,“

Þetta segir Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra, í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag. Blaðið skýrir frá því að Skúli Mogensen, forstjóri WOW-air, hafi haft óformlega samband við forsvarsmenn Icelandair á fimmtudag og viljað taka aftur upp þráðinn um sameiningu félaganna, en stjórn Icelandair hafi ekki ljáð máls á því.

Fyrir vikið hafa nú ákvæði eigenda skuldabréfa á félagið virkjast að nýju, en þeir höfðu áður samþykkt skilmálabreytingar að kröfu Indigo Partners, að því gefnu að gengið yrði frá kaupum og lánveitingum Indigo Partners til WOW-air fyrir febrúar lok.

Tilkynningin sem WOW-air sendi frá sér skömmu fyrir miðnætti, fimmtudagskvöldið 28. febrúar sl. 

Það tókst ekki, þrátt fyrir maraþonfundi, og þótt samningsaðilar hafi gefið sér aukinn frest út mars til að ljúka málum, dylst engum að framtíð flugfélagsins hangir á bláþræði og að mikið er undir.

Frískleiki, hugmyndaauðgi og áræðni

Davíð segir í Reykjavíkurbréfinu, að ekki fari á milli mála að flug­fé­lagið WOW eigi í vök að verj­ast núna.

„Það eru vond tíðindi en ekki al­veg ný. Marg­ir hafa horft á æv­in­týra­leg­an vöxt fé­lags­ins með undr­un og stolti í senn og það hef­ur óneit­an­lega verið í aug­um þeirra eins kon­ar tákn­mynd fyr­ir frísk­leika, hug­mynda­auðgi og áræðni. Þegar slær í bak­segl hætt­ir okk­ur til að horfa til annarra atriða, sem eru speg­il­mynd þeirra sem nefnd voru. Skort hafi eðli­lega var­færni, áhættu­fælni þurfi að vera í bland við djörf­ung og hik­leysi og margt af þessu tagi er tínt til. En þær at­huga­semd­ir flokk­ast óneit­an­lega að nokkru leyti und­ir hand­hæga efti­r­á­speki, sem all­ir gera sig ein­hvern tíma seka um,“ segir hann.

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóri er ritstjóri Morgunblaðsins.

Bendir hann á að sveigj­an­leiki og viðbragðshraði sjálf­stæðrar mynt­ar hafi lagt grunn að ferðaiðnaðinum sem burðar­at­vinnu­grein hér eft­ir fall bank­anna og ann­ars sem kjöl­sog þess tók.

„Ferðaiðnaður­inn er ekki með gró­inn grund­völl til ára­tuga eins og er raun­in í mörg­um lönd­um sem við erum tek­in að keppa við, og eru þess vegna ekki eins varn­ar­laus og við fyr­ir óvænt­um sveifl­um, svo ekki sé talað um heima­til­búna eyðilegg­ing­ar­her­ferð.

Það er vart hægt að hugsa sér harðdræg­ari skil­yrði til þess að bjarga ungu fram­sæknu flug­fé­lagi fyr­ir horn en nú eru til þess þegar fal­l­exi hang­ir yfir slík­um rekstri. Og þá er ekki aðeins verið að tala um hinn stórskaðlega skæru­hernað sem boðaður hef­ur verið, sem óneit­an­lega minn­ir meir á skemmd­ar­verk gagn­vart þjóðfé­lag­inu í heild en á venju­lega vinnu­deilu síðari ára­tuga.

Aðdrag­and­inn einn og þær hót­an­ir sem þá lágu í loft­inu eitruðu svo allt and­rúms­loft að mjög hef­ur dregið úr vilja og getu fyr­ir­tækja á fjöl­mörg­um sviðum og velt­an á markaði minn­ir helst á snigil sem hörfar inn í kuðung sinn í nauðvörn.

Fólkið í land­inu fæl­ist frá fjár­fest­ing­um, stór­um og smá­um með til­heyr­andi af­leiðing­um. Ekki er til það verka­lýðsfé­lag í heim­in­um sem skapað hef­ur ný störf fyr­ir al­menn­ing og er ekki gerð krafa til þess. En þegar starfa­eyðir er kom­in efst á verk­efna­lista slíkra fé­laga þá er illa komið.

Þegar skæru­verk­föll, sem aug­ljós­lega stang­ast á við lagaum­hverfið svo ekki sé talað um anda þess, bæt­ast svo við geta vart verið verri skil­yrði til þess að bjarga megi flug­fé­lagi og þúsund starfs­mönn­um þess og enn fleiri tengd­um og af­leidd­um störf­um.

Þessi heima­til­bún­ing­ur skell­ur nú eins og vond­ur vell­ing­ur í and­lit þeirra sem í varn­ar­bar­átt­unni standa,“ segir í Reykjavíkurbréfinu.