Getur VG setið í ríkisstjórn með svo lítið fylgi?

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og forsætisráðherra, reyndi að vera brött á fundi flokksráðs í gær, sama dag og nýr Þjóðarpúls Gallup birtist fyrir febrúar, sem sýndi verstu útkomu flokksins nokkru sinni, 4,7%. Eins og fjölmiðlar sögðu frá í gærkvöldi myndi það þýða að flokkur hennar þurrkaðist út af þingi; næði hvorki kjördæmakjörnum manni né uppbótarmanni. Aldrei í Íslandssögunni hefur það gerst að flokkur forsætisráðherra fengi slíka útreið í kosningum.

Egill Helgason sjónvarpsmaður gerir þetta að umtalsefni á fésbókinni og spyr:

„Spurning hvort VG geti setið í ríkisstjórn lengur þegar fylgið er orðið svona lítið.“

Og hann bætir við: „Ég gæti reyndar vel hugsað mér Katrínu Jakobsdóttur sem forseta. En kosningar á þessum tímapunkti yrði hryllingur. Það væri leikur einn fyrir flokka að haga málum þannig að þær myndu allar snúast um innflytjendur og hælisleitendur. Erum þegar komin með upptaktinn að því.“