Gift í 60 ár og dóu sama dag af völdum veirunnar: — Þau dóu ein og enginn gat kvatt

Ítalir eru harmi slegnir yfir hinni skæðu Kórónaveiru sem hefur orðið fjölda landsmanna að aldurtila undanfarna daga. Ekkert land utan Kína hefur orðið eins illa úti af völdum veirunnar og í morgun höfðu 827 látið lífið, en staðfest smit eru 12.462.

Luca Varrara hefur deilt frásögn sinni á samfélagsmiðlum, en hann missti báða foreldra sína sl. þriðjudag af völdum veirunnar. Hvorki hann né aðrir ættingjar gáu verið viðstaddir kveðjustundina, en þau létust með aðeins tveggja klukkustunda millibili.

Severa Belotti, 82 ára, and Luigi Carrara, 86, höfðu verið einangruð á heimili sínu undanfarna daga í Albino, litlum bæ í Bergamo-héraði á Norður Ítalíu. Þau voru við ágæta heilsu áður en ósköpin dundu yfir og höfðu verið gift í sextíu ár.

Þar dvöldust þau í átta daga án læknisþjónustu, þótt þau væri með háan hita, eða yfir 39 gráður. Luigi var fluttur fárveikur á sjúkrahús sl. laugardag og eiginkona hans daginn eftir.

„Þau dóu ein og yfirgefin, þannig virkar þessi veira,“ segir sonur þeirra.

Hann er sjálfur í sóttkví ásamt eiginkonu og börnum og kvartar yfir því að þrátt fyrir ítrekuð símtöl við neyðarlínuna dagana á undan hafi ekkert gengið að fá læknavitjun.

Lýsing hans á ástandinu á spítalanum er ekki fögur. Allt sé á rúi og stúi, starfsfólk viti ekki hvert eigi að leggja alla sjúklingana sem hrúgist inn og hvarvetna séu læknar að ákveða hverjum eigi að reyna að bjarga og hverjum ekki.