„Gífurleg vonbrigði“: Aldrei greinst fleiri á einum degi

Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi Almannavarna. / Lögreglan.

Smit innanlands af völdum COVID-19 voru 123, samkvæmt uppfærðum tölum sóttvarnalæknis sem birtar eru á vefsíðunni covid.is. Þetta þýðir að aldrei hafa fleiri greinst með COVID-19 á einum degi áður hér á landi.

Alma Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag, að delta-afbrigðið sé sýnilega miklu meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar. Afbrigðið sé þeirrar gerðar, að það breyti leikreglunum í faraldrinum.

Viljinn spurði landlækni á fundinum hvort ekki væru vonbrigði að svo háar smittölur kæmu fram hjá þjóð með jafn hátt bólusetningarhlutfall og raun ber vitni. Alma svaraði því til að vissulega væru þetta gífurleg vonbrigði, en enn sárara hefði verið að horfa upp á þessa þróun með óbólusetta landsmenn. Ótvírætt væri að bólusetningin minnkaði stórum líkur á veikindum.

Flestir sem hafa smitast að undanförnu voru bólusettir með Janssen og fengu einn skammt í stað tveggja hjá öðrum bóluefnum. Alma segir þetta vissulega áhyggjuefni og unnið sé að því að flýta öðrum skammti af annarri tegund fyrir þennan hóp, en hafa beri einnig í huga að margir hinna smituðu séu ungt fólk sem sé mikið á ferðinni og það sé einmitt aldurshópurinn sem hafi fengið Janssen að stærstum hluta. Því væri ekki alveg sanngjarnt að dæma bóluefnið eingöngu út frá smittíðninni nú.

Boðað hefur verið aftur til upplýsingafundar almannavarna á fimmtudag kl. 11.