RAUÐ VIÐVÖRUN Á NV-landi: Gjörningaveður í vændum?

Viðvörun hefur nú verið uppfærð úr appelsínugulri í rauða í fyrsta sinn. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Spáð er aftakaveðri víða á landinu á síðdegis á morgun og miðvikudag, og veðurfræðingar Veðurstofu Íslands mæla með því að fólk fylgist vel með viðvörunum og veðurspám. Hríð er spáð á Austfjörðum og mikilli snjókomu og skafrenningi á landinu norðanverðu. Frá þessu segir á vef Veðurstofu Íslands.

(FRÉTTIN HEFUR VERIÐ UPPFÆRÐ)

Rauð viðvörun notuð í fyrsta skipti: Strandir og norðurland vestra.

Ríkislögreglustjóri lýsir yfir óvissustigi á landinu þar sem spáð er aftakaveðri. Ákvörðunin er tekin í samráði við alla lögreglustjóra landsins og í samræmi við veðurspá Veðurstofu Íslands. Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað. Samráð á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið.

Appelsínugul viðvörun hefur verið gefin út vegna veðurs á eftirtöldum stöðum: Höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflói, Breiðafjörður, Vestfirðir, Norðurland eystra og Miðhálendi. Viðvörunin tekur gildi snemma í fyrramálið.

Gul viðvörun hefur verið gefin út vegna veðurs á þessum stöðum: Norðurland eystra, Austurland að Glettingi, Austfirðir og Suðausturland.

Sjálf lægðin virðist ætla að „taka lykkjuna“ yfir landinu um leið og hún dýpkar.  Það þýðir að hún kemur úr suðvestri yfir austanvert landið, sveigir síðan til vesturs og suðvesturs og verður nærri kominn hringinn þarna kl. 15 á þriðjudaginn. Frá því segir á vef Bliku. Spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar sé á svipuðum nótum, segir þar einnig.

N og NA illviðri af þessari gerð eru fremur fátíð og geta verið sérlega skeinuhætt norðan- og vestanlands. Sagt var frá því í hádegisfréttum Bylgjunnar að um versta veður ársins gæti verið að ræða. Spáð er allt að 33 m/s á landinu norðanverðu, sem er 12 vindstig í gamla vindhraðakerfinu. Það kallast fárviðri, eða stórviðri og fólk ætti ekki að vera á ferli að nauðsynjalausu vegna þess að það sé hættulegt, sbr. upplýsingar á vef Veðurstofunnar.

Gjörningaveður gæti því átt vel við um það sem landsmenn þurfa að búa sig undir næstu klukkutímana, en það er mjög slæmt veður, líkt og um galdur væri að ræða.