Stöðugleiki hefur lengi verið talið helsta aðalsmerki fyrirtækja, en þær kenningar eru úreltar, segir dr. Inga Minelgaite, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í samtali við Viljann.
Hún segir að í nútímanum og ekki síst í framtíðinni þurfi fyrirtæki og einstaklingar aukinheldur að búa yfir seiglu, eða því sem kallað hefur verið resilience.
Dr. Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans, vék einmitt að seigluhugtakinu á upplýsingafundi Almannavarna á dögunum, þegar hann sagði að innan geðheilbrigðisfræða hafi á undanförnum árum vaxandi athygli beinst að hugtakinu resilience, sem á íslensku hafi stundum verið þýtt með orðinu þrautseigja eða seigla.
„Mér finnst reyndar að orðið þolgæði, að vera þolgóður sé kannski betra hugtak þarna, því það dregur fram að þetta snýst ekki um það að þrauka samanbitinn heldur um það jákvæða við að þola erfiðleika, að komast í gegnum þá og læra jafnvel af reynslunni,“ sagði Páll.
Og hann bætti við:
„En hvað er þá það að sýna þrautseigju, að vera þolgóður? Það sem einkennir hinn þolgóða er hæfileikinn til að muna markmiðið sem stefnt er að, að missa ekki sjónar á því og láta ekki áföll brjóta sig heldur gefa eftir, bogna – en koma svo til baka og halda áfram ótrauður. Öll él styttir upp um síðir. Sveigjanleiki og stefnufesta eru því mikilvægustu þættir þolgæðisins. Ástæða þess að geðheilbrigðisstarfsmenn hafa áhuga á þessu hugtaki er sú að það lenda allir í áföllum á æfi sinni eða þurfa að vinna undir miklu álagi. Þolgæði er mikilvægur þáttur sem eflir okkur til að takast á við áföll, með því að byggja það upp þá styrkjumst við.
Hæfileiki einstaklinga til að sýna þolgæði og þrautseigju er ekki fasti, ekki eitthvað óbreytanlegt, heldur breytilegur. Í grunninn höfum við ákveðinn persónuleika en síðan skipta viðhorf okkar til erfiðleikanna miklu máli, það hvort við skiljum ástæðu þeirra og hvort við sjáum í þeim tilgang. Það má síðan ekki gleyma því að það umhverfi sem við búum við er gríðarmikilvægt, jafnvel mikilvægara en það hversu sterk við erum sjálf í grunninn því enginn er eyland. Stuðningur fjölskyldu, vina og síðan velferðarkerfisins, þess opinbera kerfis sem við höfum sett upp til að styðja við hvert annað á erfiðum tímum, allt þetta er ekki síður hluti af þolgæði okkar og seiglu sem samfélags heldur en hver einstaklingur.“
Laga sig að breyttum aðstæðum
Inga Minelgaite tekur undir þetta. Hún segir að fyrirtæki og starfsfólk þeirra þurfi að sýna seiglu og þeir kostir séu eitt það eftirsóknarverðasta á vinnumarkaði nútímans og í framtíðinni. Af því leiði að aukin áhersla verði lögð á að byggja upp slíka eiginleika; að fólk vinni út frá aðstæðunum eins og þær eru og geti tekist á við tímabundna erfiðleika og áskoranir og verið fljótt að breyta um kúrs þegar áföll dynja yfir. Laga sig að breyttum aðstæðum og leita lausna þegar öll sund virðast jafnvel lokuð.
Þrjá eiginleika þurfi að temja sér til að búa yfir seiglu til að lifa af
Seiglan teljist nú sífellt mikilvægari, ekki aðeins í mannauðsstjórnun. Hagfræðingar séu farnir að beina sjónum sínum að seiglu samfélaga í rannsóknum sínum og getu til að laga sig að breyttum veruleika. Slíkt geti verið afar áhugavert fyrir almenning í ljósi þess hvernig kórónuveirufaraldurinn hafi leikið hagkerfi heimsins.
Þrjá eiginleika þurfi að temja sér til að búa yfir seiglu til að lifa af og komast gegnum erfiða tíma. Í fyrsta lagi að sætta sig við staðreyndir og orðinn hlut, í öðru lagi að viðurkenna að tilgangur sé með öllu sem gerist í lífinu og í þriðja lagi að geta lagað sig að breyttum aðstæðum og vera lausnamiðaður.
„Þessi þrjú atriði einkenna þá sem búa yfir seiglu, að því fram kemur í rannsóknum vísindamanna við Harvard-háskólann í Bandaríkjunum. Og það athyglisverða sem kemur í ljós er að ekki reyni endilega mest á seigluna í krísum, heldur ekki síður þegar ekkert er að frétta. Þá hættir okkur til að slaka á og verða kærulaus og huga ekki nægilega vel að sóknarfærum framtíðarinnar.
Þetta reddast!
„Það sem hefur neikvæðust áhrif á seiglu starfsfólksins er fyrirtækjamenningin og stefnumótun einstakra fyrirtækja, að því er rannsóknir sýna. Með því að losna við slíka menningu og eitrað starfsumhverfi er unnt að snarefla getu starfsfólksins til að sýna þrautseiglu og seiglu og búa það þannig undir erfiðari tíma,“ segir hún.
Inga segir að Íslendingar séu frægir fyrir „Þetta reddast!“ hugarfar sitt og það sé sannarlega vitnisburður um að seiglan sé landsmönnum í blóð borin. Þetta hafi komið berlega í ljós í mótlætinu tengt covid-19 undanfarnar vikur, þar sem samfélagið hafi á örskotsstundu lagað sig að gjörbreyttum aðstæðum; ekki aðeins með því að takast á við veiruna á þann hátt að alþjóðasamfélagið telji það til algjörrar fyrirmyndar, heldur einnig hitt að fyrirtæki, skólar og einstaklingar hafi lært á fjarvinnslu, fjarfundi og vinnu heiman frá á örfáum dögum og tileinkað sér. Með því hafi orðið jákvæð breyting sem skili sér til lengri framtíðar; fólk skilji betur mikilvægi þess að nýta tímann vel og eyða honum ekki í einhvern óþarfa.
Hún tekur dæmi af tæknifyrirtækinu Zoom sem hafi slegið í gegn með sínar lausnir á heimsvísu þegar allir þurftu að finna ákjósanlegan fjarfundabúnað. Sama hafi íslenskur orkuiðnaður gert undanfarin ár í kjölfar olíukrísu á heimsmarkaði. Sama megi segja um uppgang ferðamannaiðnaðarins eftir hrunið 2008. Þótt það hafi ekki verið með jafn sjálfbærum hætti, hafi það gegnt lykilhlutverki í efnahagslegri endurreisn landsins og muni skila sér í bættum lífskjörum og fjölbreyttari tækifærum um lengri framtíð.
„Ísland er sem land einkenni seiglunnar. Að komast gegnum skaflinn og nýta þau tækifæri sem bjóðast. Nú er lag að gera meiriháttar breytingar og dvelja ekki við mótlætið, heldur sækja fram til framtíðar. Það þarf djarfa hugsun og huga að sjálfbærum vexti,“ segir hún.