Gnarr er víða: Grínið sigraði í Úkraínu

Zelensky (til vinstri), sem hefur aldrei tekið þátt í stjórnmálum, varð strax sigurstranglegastur þeirra 39 kandidata sem þátt tóku í fyrri umferðinni, og sigraði í seinni umferð með rúmlega 73% atkvæðanna, gagnvart sitjandi forseta Petro Poroshenko (til hægri), sem hlaut innan við fjórðung atkvæða.

Grínistinn Volodymyr Zelensky hefur sigrað í báðum umferðum úkraínsku forsetakosninganna með miklum yfirburðum og er því réttkjörinn nýr forseti landsins.

Zelensky, sem hefur aldrei tekið þátt í stjórnmálum, varð strax sigurstranglegastur þeirra 39 kandidata sem þátt tóku í fyrri umferðinni, og sigraði í seinni umferð með rúmlega 73% atkvæðanna, gagnvart sitjandi forseta Petro Poroshenko, sem hlaut innan við fjórðung atkvæða.

Poroshenko, sem hefur verið forseti frá árinu 2014, hefur viðrað áhyggjur af því að reynsluleysi andstæðings síns gæti komið Úkraínu í koll í samskiptum landsins við Rússland.

Jean-Claude Juncker forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins hafa báðir óskað Úkraínu til hamingju með vel heppnaðar kosningar, óskað sigurvegaranum til hamingju og lofað stuðningi ESB, á Twitter.

Hver er þessi maður?

Zelensky er 41 árs gamall, rússneskumælandi leikari, grínisti og framleiðandi. Hann er með lögfræðigráðu frá Viðskiptaháskólanum í Kænugarði. Zelensky er milljónamæringur af gyðingaættum en eiginkona hans er kristin, en hann hefur neitað að gefa upp hverrar trúar hann er. Hann er fæddur í að mestu rússneskumælandi iðnaðarborginni Kryvyi Rih í miðri Úkraínu.

Undanfarin þrjú ár hefur hann verið stjarnan í vinsælum pólitískum grínþáttum, Þjónn fólksins, þar sem hann leikur kennara sem verður forseti og berst við spillingu. Flokkur hans ber nafn þáttarins.

Hvernig hann sannfærði kjósendur

Tilkynningu um framboð sitt setti Zelensky fram í áramótagrínþætti í sjónvarpi. Hann rak óhefðbundna kosningabaráttu á samfélagsmiðlum og þar sem hann ferðaðist og var með uppistand, en forðaðist að mestu blaðamenn og rökræður.

Þrátt fyrir að hafa ekki kynnt ítarleg plön um hvernig hann ætlaði að uppræta spillingu og endurreisa stríðshrjátt heimalandið, skaust hann á toppinn í skoðanakönnunum, og hefur notið góðs af leiða landsmanna á hefðbundnum stjórnmálamönnum.

Staða Zelensky í mikilvægum málum

Zelensky hefur sagt að hann styðji vonir um að Úkraína geti orðið meðlimur Evrópusambandsins og NATO. Hann kennir Rússlandsforseta, Vladimir Putin, um ófriðinn í austurhéröðum Úkraínu, sem valdið hefur dauða 13 þúsund manna frá árinu 2014 og vill að Rússland skili Krímskaga og frelsi stríðsfanga. Hann lofaði framhaldi á friðarviðræðum við Rússland og vill endurlífga Minsk-sáttmálann um vopnahlé milli úkraínska hersins og rússneskra aðskilnaðarsinna í austurhlutanum. Zelensky verður þó að tryggja sér þingmeirihluta, ætli hann að ná fram einhverjum af markmiðum sínum.

Talið er að Zelensky sé studdur af óligarkanum Ihor Kolomoisky, óvini fráfarandi forseta, Poroshenko, en hann á m.a. sjónvarpsstöðina sem hefur sent út grínþætti Zelensky. 

Heimildir: Al Jazeera og Euronews.