Gömul saga og ný að fólk sé sett út af sakramentinu

Fátt lýsir betur samfélögum, eðli þeirra og uppbyggingu en að rýna í skráðar og óskráðar reglur um útskúfun. Slíkar hugmyndir birtast á öllum tímum og þar er samtími okkar engin undantekning. Innan kirkjunnar var talað um bannfæringar (excommunicatio) sem fólu í sér að fólk fékk ekki að ganga til altaris („sett út af sakrametinu“) eða var einangrað með öðrum hætti þar til yfirbót hafði farið fram.

Sr. Skúli Ólafsson.

Á þremur fræðslukvöldum í Neskirkju á fimmtudagskvöldum nú í febrúar ræða guðfræðingarnir Bjarni Randver Sigurvinsson og Skúli S. Ólafsson um bannfæringar og útskúfun í margbreytilegum samfélögum.

Byggt verður á rannsóknum á sviði sagnfræði og félagsfræði á trúarhreyfingum og dæmi tekin úr frásögnum, dómabókum og öðrum heimildum.

„Við erum semsagt tveir með þetta,“ segir sr. Skúli í samtali við Viljann. „Ég sem skrifaði doktorsritgerð um Altarisgöngu á 17 öld og fyrst og fremst það þegar fólk var ,,sett út af sakramentinu“ fyrir einhverjar sakir. Fullt af dómum, lögum og frásögnum sem lágu til grundvallar þeirri vinnu.

Bjarni Randver Sigurvinsson trúarbragðafræðingur.

Svo er það Bjarni Randver Sigurvinsson sem er manna fróðastur á Íslandi og víðar um nýtrúarhreyfingar. Hann er núna staddur í Seol S-kóreu á heimsþingi Moon-ista. Hann ætlar að skoða sambærilegt ferli í ýmsum trúarhópum.“

„Saman munum við svo velta fyrir okkur þeirri eldfimu spurningu – hver eru bannfærð, bannsett, útskúfuð og sett út af sakramentinu í okkar samfélagi – og þá um leið, hvað segir það um skilgreiningar okkar á hinni ásættanlegu manngerð?“

Hér er að finna facebook-síðu bannfæringarkvöldanna.