Ekkert virkt smit greindist á landamærunum síðastliðinn sólarhring. Alls voru tekin 1.629 sýni og reyndist ekkert þeirra virkt.
Frá og með 15. júní hafa 47.357 einstaklingar farið í sýnatöku við landamæraskimun. Af þeim hafa 18 greinst sem smitandi einstaklingar.
Alls eru nú 8 í einangrun á Íslandi, þar af 8 með virk smit, samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnalækni.
Eins og Viljinn greindi frá um helgina, hefur Ísland rokið að undanförnu upp samræmda evrópska lista yfir staðfest smit af völdum kórónaveirunnar COVID-19. Hafa stjórnvöld í ýmsum ríkjum því krafist þess að fólk sem kemur frá Íslandi fari þegar í stað í fjórtán daga sóttkví.
Ranghugmyndir þessar um að ný bylgja sé hafin hér á landi stöfuðu af því að ekki var gerður greinarmunur á gömlum óvirkum smitum og nýjum í tölum sem Ísland sendi frá sér í alþjóðlega tölfræðigagnagrunna.
Frá og með deginum í gær hefur verið gerð breyting á þessari framsetningu gagna frá sóttvarnalækni. Hún felst í því að ekki eru lengur talin með í heildarfjölda smita þau tilvik úr landamæraskimun þar sem mótefni hefur mælst gegn veirunni.
„Frá 15. júní hafa verið gefnar upplýsingar um þann fjölda sýna í landamæraskimun sem hafa gefið til kynna að veiran SARS-COV-2 (sú sem veldur COVID-19) sé til staðar. Allir þeir sem mælst hafa með veiruna hafa í kjölfarið verið prófaðir fyrir mótefnum í blóði og teljast þeir sem hafa slík mótefni ekki lengur vera veikir af COVID-19, og því ekki smitandi.
Af þeim 110 einstaklingum sem mælst hafa jákvæðir á veiruprófinu hafa 92 reynst hafa mótefni, en 18 hafa verið með virkt smit. Hingað til hafa öll þau tilvik, þar sem um jákvæða svörun á veiruprófi var að ræða, verið skráð sem ný tilvik COVID-19 á Íslandi. Þessu hefur nú verið breytt til réttara horfs, þar sem umræddir einstaklingar ættu ekki að teljast hafa verið veikir af sjúkdóminum á Íslandi.
Áfram verður hægt að nálgast allar upplýsingar um fjölda skimana, fjölda jákvæðra prófa og virk og óvirk smit,“ segir í tilkynningu sóttvarnalæknis.