„Þeir fóru inn um hliðið, lögreglan, og þeir hófu að berja á hurðina… síðan ákvað lögreglan að kalla eftir aukinni aðstoð. Þeir höfðu samband við Alríkislögregluna (FBI) og þeir hringdu á sérsveitina. Og þeir óskuðu eftir sprengjusérfræðingum.“ Þannig lýsir Zachary Vorhies, fyrrum starfsmaður Google, atburðum sem gerðust í framhaldi af því að hann lak skjölum frá fyrirtækinu, í viðtali við Project Veritas. Vorhies ákvað á þessu stigi málsins að koma fram í eigin persónu og vill hvetja fleiri starfsmenn fyrirtækisins til að taka þátt í uppljóstrunum. Erlendir miðlar fjölluðu einnig um málið í gær.
„Þetta er það sem Google reynir að gera, meira eða minna, til að hræða starfsmenn sem snúast gegn fyrirtækinu…“ segir Vorhies, en Viljinn fjallaði um þegar hann lak skjölum og myndbandi frá Google til Project Veritas fyrr í sumar. Skjölin og myndböndin gefa til kynna að fyrirtækið matreiði upplýsingar, sem falla að pólitískri rétthugsun, ofan í notendur með gervigreind og öðrum tólum. Jafnframt voru þar vísbendingar um áætlanir fyrirtækisins til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga í Bandaríkjunum.
Nafnlaus aðili fann út hver hafði lekið upplýsingunum, en Vorhies hefur Google grunað um að hafa þefað sig uppi. Í framhaldinu fékk hann bréf frá fyrirtækinu, sem innihélt kröfulista, m.a. um öll skjöl fyrirtækisins sem hann gæti hafa haft með sér, auk allra þeirra sem hann kynni að hafa dreift þeim til. Vorhies kveðst hafa sent skjölin til samkeppniseftirlits dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna.
Lögreglan staðfesti heimsókn til Vorhies
Samkvæmt Vorhies, hafði lögreglan í San Fransisco því næst fengið símtal frá Google þar sem óskað var eftir að hún „kannaði ástand hans“ (e. wellness check). Project Veritas fékk staðfest hjá lögreglunni, að hafa fengið tilkynningu frá fyrirtækinu um að „kanna andlegt ástand íbúa“ á heimilisfangi Vorhies. Hann segist í viðtalinu hafa útbúið líkrofa, (e. dead mans switch), það er, skyldi eitthvað alvarlegt henda sig, þá verði enn fleiri skjöl birt í framhaldinu.
Hundruð skjala frá Google hafa verið birt eftir að Vories lak þeim, en hann kvaðst ekki hafa getað lifað með sjálfum sér án þess að ljóstra upp um það hvað fyrirtækið aðhefst. Hann hafði verið fastur starfsmaður þar í átta ár, og hafði aðgang að miklu magni skjala hjá fyrirtækinu. Á meðal skjalanna er svartur listi yfir fréttamiðla og aðrar vefsíður sem birtast því ekki á eðlilegan hátt í leitarniðurstöðum á Google Android vörum, auk upplýsinga um gervigreind sem sníður leitarniðurstöður og birtingu upplýsinga að réttlætishugsjón fyrirtækisins (e. Fairness).