Gott dæmi um ógöngur af völdum öfga til vinstri og hægri

„Venesúela er gott dæmi um ógöngur sem öfgar til vinstri og hægri leiða – þegar virðing fyrir lýðræði helst ekki í hendur við umbótaviljann vinstra megin – og jafnaðarstefnan er ekki leiðarljós við hagstjórnina hægra megin.“

Þetta segir Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á fésbók um ástandið í Venesúela, þar sem allt rambar nú á barmi borgarastyrjaldar og fjölmörg ríki hafa viðurkennt nýjan forseta í stað Maduros, sem verið hefur forseti undanfarin ár.

Venesúela hefur verið kallað misheppnaðasta tilraun í sósíalisma á seinni árum og víða um lönd hafa vinstri menn, sem áður höfðu lýst hrifningu á stefnu þarlendra stjórnvalda, verið beðnir um álit sitt á því sem er að gerast núna.

„Þegar Hugo Chavez var kosinn forseti þar árið 1998 var auður í samfélaginu, miklar þjóðartekjur en misskiptingin gríðarleg, gráðug yfirstétt annars vegar og svo hins vegar alþýða sem bjó við bág kjör því hún naut ekki arðsins af auðlindunum.

Maduro forseti við hliðina á risastórri mynd af Chavez, forvera sínum.

Chavez stóð fyrir ýmsum umbótum á kjörum þeirra fátæku og fjármagnaði með gríðarlegum olíuauð, en hann féll í þá freistni að sniðganga þingið árið 1999 og breyta stjórnarskránni. Það tók að bera á þeirri blöndu óstjórnar og ofstjórnar sem fylgir of mikilli miðstýringu og klíkuræði. Verðbólga fór úr böndunum, vöruskortur fylgdi viðskiptaþvingunum.

Um þverbak keyrði eftir að Cavez dó og Nikulás Maduro tók við – hann hefur hunsað niðurstöðu kosninga og sífellt hert tökin með kunnuglegum hætti, svo minnir á ógnarstjórnina á Kúbu og í öðrum löndum þar sem fámenn klíka hefur safnað völdum í nafni alþýðu og skjóli hers,“ segir Guðmundur Andri.