Græn kirkja eitt fjölmennasta samfélag landsins

Vígslubiskupshjónin í Skálholti.

Á Degi náttúrunnar í dag, mánudaginn 16. september kl. 17:00, hefst í Skálholti athöfn þar sem helgaður verður skógræktarreitur til kolefnisjöfnunar fyrir söfnuði í þjóðkirkjunni.

Þegar hafa átta söfnuðir byrjað að taka grænu skrefin svokölluðu í samstarfi við umhverfisnefnd kirkjunnar – Græna kirkjan, samkvæmt upplýsingum frá Þjóðkirkjunni.

Hallgrímssöfnuður í Reykjavík hefur ákveðið að kolefnisjafna sína starfsemi árlega með skógrækt. Í Skálholti verða á Á Degi náttúrunnar hópar frá Hallgrímskirkju, Kópavogskirkju og Skálholtskirkju sem taka munu þátt í helgun reitsins með viðeigandi athöfn og planta „sóknartrjám“.

Kristján Björnsson vígslubiskup og séra Halldór Reynisson stýra athöfnininni.

Að lokinni trjáplöntun verður málsverður í Sumarbúðum kirkjunnar sem kostar kr. 1500.

Rúta fer frá Hallgrímskirkju kl. 16:30 í dag og er áætlað að koma til baka um kl. 21:00.

Helgun skóræktarreitsins er hluti af Grænu kirkjunni. Græna kirkjan er skilgreining og stefna íslensku þjóðkirkjunnar um að vera leiðandi í umhverfisátaki heimsins. Átak sem miðar m.a. að því að ná tökum á loftslagsvanda samtímans.

Eins og fyrr greinir hafa átta söfnuðir þjóðkirkjunnar byrjað á að taka grænu skrefin. Um þau má nánar lesa hér.

Á vef Þjóðkirkjunnar er bent á að Íslenska þjóðkirkjan telji 237 þúsund safnaðarmeðlimi. „Græn kirkja er því eitt fjölmennasta samfélag landsins sem hefur sett sig í lið umhverfisverndar,“ segir þar.

Meira um Grænu kirkjuna má lesa hér.