Grasrót Sjálfstæðisflokksins herjar á Brynjar vegna orkupakka þrjú

Brynjar Níelsson, lögmaður og fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Við í Sjálfstæðisflokknum höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi, öfugt við flesta aðra, að flokksstarf er öflugt þar sem margir koma að og hafa áhrif á stefnu flokksins. Fyrir utan Landsfund eru málefnafundir tíðir, bæði í Valhöll og hjá einstökum flokksfélögum, þar sem málin eru rædd og mismunandi skoðanir reifaðar. Þarna starfa og mæta traustir flokksmenn, sem sumir vilja kalla grasrót. Mér finnst það leiðinlegt orð enda upprunnið frá vinstri róttæklingum sem hvergi tolla nema allt sé eftir þeirra höfði.“

Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í færslu á fésbókinni í dag, en andstaða margra sjálfstæðismanna við innleiðingu þriðja orkupakkans hefur verið áberandi að undanförnu og er greinilegt að þingmaðurinn vill útskýra sitt mál fyrir þeim sem eru ekki sáttir.

„Nokkuð stór hópur „grasrótarinnar“ er heitt í hamsi vegna innleiðingar 3ja orkupakkans. Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni og mér gengur ekkert annað til en að gæta hagsmuna okkar, annars vegar þeirra sem felast í EES samstarfinu og hins vegar að tryggja um leið yfirráð okkar yfir orkuauðlindinni, hvernig eignarhaldi okkar er háttað og hvort við tökum þátt í innri markaði með sölu á orku til evrópu í gegnum sæstreng. Því er mér óskiljanlegt hvernig hagsmunum okkar er betur borgið með því að hafna 3ja orkupakkanum,“ segir Brynjar.

En hann bætir þessu við, til að undirstrika, að hann verði að fá að taka afstöðu til mála á grundvelli eigin sannfæringar:

„Mér þykir afskaplega vænt um „grasrótina“ og er í miklum samskiptum við hana og hlusta. Ég er hins vegar ekki þannig maður að afstaða mín fari eftir því hvernig vindar blása hverju sinni, hvorki hjá „grasrót“ flokksins eða annars staðar. Þið hafið kosið rangan mann á þing ef þið haldið það, kæru vinir,“ segir hann.