Nú þegar ákveðið hefur verið að grípa til hertra aðgerða á landamærunum, þrátt fyrir mikið hlutfall bólusettra hér á landi, má ljóst vera að bóluefnin og virkni þeirra hafa valdið Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni ákveðnum vonbrigðum.
Þetta mátti lesa úr orðum hans á upplýsingafundi almannavarna sl. fimmtudag, en kemur enn skýrar fram í minnisblaði því sem hann skilaði heilbrigðisráðherra um helgina.
Þar segir:
„Undanfarið hafa niðurstöður verið að berast úr erlendum rannsóknum um virkni bólusetninga gegn
delta afbrigði kórónaveirunnar. Niðurstöðurnar eru nokkuð mismunandi en sýna að virknin hjá full bólusettum gegn öllu smiti er um 50-70% en yfir 90% gegn spítalainnlögnum en vörnin er nokkru minni hjá þeim sem eru ekki fullbólusettir. Óljóst er hins vegar hversu virk bóluefnin eru hjá eldri einstaklingum og einstaklingum með undirliggjandi sjúkdóma. Hins vegar eru að berast upplýsingar frá Ísrael um að þar er veruleg aukning í fjölda smita meðal bólusettra og einnig sést aukning í alvarlegum veikindum og spítalainnlögnum.
Þessar niðurstöður styðja það sem sést hefur hér á landi á undanförnum vikum að full bólusettir einstaklingar geta smitast af COVID-19 og geta smitað aðra.
Með tilkomu delta afbrigðis veirunnar hafa forsendur breyst nokkuð. Samkvæmt áhættumati ECDC og WHO er óvarlegt að aflétta of hratt öllum takmörkunum á aðgerðum gegn COVID-19 jafnvel þó að tekist hafi að bólusetja þorra þjóðarinnar. Ekki hefur tekist að tilgreina eitthvað ákveðið hlutfall sem bólusetja þarf til að koma í veg fyrir útbreitt samfélagslegt smit. Oft hefur verið miðað við 60-70% þátttöku allrar þjóðarinnar en þá er lagt út frá að bólusetning sé >90% virk við að koma í veg fyrir smit.
Í ljósi nýrra upplýsinga um smit þrátt fyrir bólusetningu er ljóst hlutfallið þarf líklega að vera hærra en nefnt hefur verið.“
Og Þórólfur segir ennfremur í minnisblaðinu:
„Áhættumat mitt á alvarlegum COVID-19 faraldri á komandi vikum fylgir hér að neðan og byggi ég það á tölulegum upplýsingum sem fram koma fyrr í þessu skjali, upplýsingum um faraldurinn í nálægum löndum og niðurstöðum erlendra rannsókna:
- Full bólusettir einstaklingar geta borið með sér veiruna hingað til lands frá löndum/svæðum þar sem útbreiðsla COVID-19 er mikil. Þeir geta verið einkennalitlir eða einkennalausir en engu að síður smitað aðra bæði bólusetta og óbólusetta. Þó að líkur á smiti hjá bólusettum ferðamönnum séu litlar (<0,1%) þá getur fjöldi þessara einstaklinga verið umtalsverður með auknum fjölda ferðamanna. Núna er daglegur fjöldi ferðamanna um 5.000-7.000 og má búast við að hann fari vaxandi á næstu vikum. Því má búast við 5-10 smituðum ferðamönnum á dag meðal þeirra sem eru með gild vottorð um bólusetningu gegn COVID-19.
- Bólusettur, smitaður ferðamaður getur smitað aðra bæði óbólusetta og bólusetta einstaklinga. Þetta getur sett af stað litlar eða stórar hópsýkingar. Ekki er hægt að setja fram töluleg gildi fyrir líkur á smiti meðal þeirra sem eru bólusettir en ætla má að þær séu breytilegar og meiri hjá eldri einstaklingum og þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Verði slík smit útbreidd í samfélaginu er líklegt að þau nái til viðkvæmra einstaklinga með ófyrirséðum afleiðingum.
- Smitaðir einstaklingar sem hingað koma og hafa víðtækt tengslanet hér á landi eru líklegri til að smita aðra en þeir sem lítið tengslanet hafa. Þetta sést greinilega þegar smit hér undanfarið eru skoðuð. Um 20% þeirra sem hingað koma eru með íslenskar kennitölur og því má búast við þessi áhættuhópur telji um 1000 manns daglega.
- Alvarleg veikindi hafa enn ekki sést hjá þeim greinst hafa hér að undanförnu. Vert er þó að hafa í huga að flestir þeirra sem undanfarið hafa verið að greinast eru ungir (20-30 ára) og hraustir og þessi aldurshópur veikist að öllu jöfnu ekki alvarlega af COVID-19. Óvíst er því hvort bólusettir eldri einstaklingar eða þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma veikist alvarlega ef þeir smitast. Einnig er rétt að benda á að töluverð umræða er nú erlendis um að mögulega þurfi að gefa auka skammt af bóluefni til að auka mótstöðu einstaklinga enn frekar.
- Ég tel því óvarlegt á þessum að tímapunkti að halda áfram með óbreyttar sóttvarnaaðgerðir á landamærum því áframhaldandi smit yfir landamærin munu óhjákvæmilega leiða til áframhaldandi útbreiðslu innanlands. Ég tel því að núverandi fyrirkomulag muni óhjákvæmilega auka hættuna á frekari útbreiðslu COVID-19 innanlands með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þó miklar vonir séu bundnar við þær varnir sem hin góða þátttaka í bólusetningum hefur skapað þá tel ég ekki fyllilega vitað hversu mikil verndin raunverulega er. Ég tel þannig að forsendan fyrir því að hafa hér samfélag án innlendra takmarkana sé að lágmarka smit yfir landamærin.
- Þó að útbreiðsla kórónaveirunnar sé augljóslega orðin töluverð í samfélaginu þá bind ég vonir við að það takist að hamla útbreiðslu hennar með hvatningu til almennings um einstaklingsbundnar smitvarnir, smitrakningu, einangrun smitaðra og sóttkví þeirra sem útsettir eru.“