Gríðarlegur áhugi á bréfum í Marel: Viðskipti hófust í Amsterdam í morgun

Árni Odd­ur Þórðarson, forstjóri Marels, slær í gongið og opn­ar fyr­ir viðskipti Mar­el í Euronext-kaup­höll­inni í morgun. / Ljósmynd frá Marel.

Marel hf. hefur ákveðið lokaverðið 3,70 evrur á hlut fyrir hluti selda í hlutafjárútboði í tengslum við skráningu í Euronext kauphöllinni í Amsterdam. Skráning hluta í Marel og skilyrt viðskipti með þá hófust í Euronext í dag.

Útboðsgengið var ákveðið 3,70 evrur á hlut, en byggt á því er heildarmarkaðsvirði Marel um 2,82 milljarðar evra. Vöxtur félagsins hefur þannig verið ævintýralegur á undanförnum árum.

Í útboðinu voru boðnir til sölu um 90,9 milljónir nýrra hluta. Auk þess verða allt að um 9,1 milljón hluta gefnir út í tengslum við hefðbundinn valrétt til að mæta umframeftirspurn. Margföld umframeftirspurn var á útboðgenginu með mikilli eftirspurn frá bæði fagfjárfestum og almennum fjárfestum, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

Áætlað frjálst flot hlutabréfa í félaginu í kjölfar útboðsins er um 75,0% og hækkar í 75,3% komi til þess að valréttur til að mæta umframeftirspurn verði að fullu nýttur.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir að dagurinn í dag sé stór stund í sögu félagsins, nú þegar skráning í Euronext kauphöllina í Amsterdam er í höfn, til viðbótar við skráninguna á Íslandi.

„Við erum afar stolt af þeim mikla áhuga sem hlutabréfaútboðið fékk, bæði frá einstaklingum og fagfjárfestum hér heima og erlendis. Margföld eftirspurn var í útboðinu sem dreifðist vel til fjárfesta í Bretlandi, Bandaríkjunum, Íslandi, Hollandi og fleiri landa. Skráningin í Euronext kauphöllina mun styðja við næstu skref í framþróun félagsins og styðja við metnaðarfull vaxtarmarkmið. Sýn okkar er veröld þar sem hágæða matvæli eru framleidd á hagkvæman og sjálfbæran hátt,“ segir hann.

„Við erum bæði stolt og ánægð með þann mikla áhuga sem útboðið hefur fengið. Margföld eftirspurn frá bæði einstaklingum og fagfjárfestum er góður vitnisburður um stöndugan rekstur félagsins og þau miklu vaxtartækifæri sem framundan eru í matvinnsluiðnaði,“ segir Ásthildur Margrét Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel.

Hún bætir við:

„Aukin breidd í hluthafahópnum og aðkoma stórra alþjóðlegra hornsteinsfjárfesta eru kærkomin viðbót við þann öfluga hóp hluthafa sem stutt hafa við félagið hingað til. Skráningin í Euronext kauphöllina í Amsterdam mun styrkja fjárhagsskipan félagsins og veita reynslumiklu stjórnendateymi okkar styrkan grunn til að framfylgja metnaðarfullri vaxtarstefnu okkar.”