Gríðarlegur fjöldi á velheppnaðri Menningarnótt

Talið er að vel á annað hundrað þúsund manns hafi komið í miðborg Reykjavíkur á Menningarnótt í gær í fallegu veðri. Yfir 300 viðburðir voru í boði á afmælisdegi Reykjavíkurborgar sem stóð yfir allan daginn og lauk undir miðnætti með glæsilegri flugeldasýningu.

Mannfjöldinn dreifði sér vel í miðbæ Reykjavíkur og var mikil þátttaka í öllu viðburðarhaldi.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu gekk hátíðin afar vel fyrir sig og aðsókn gesta var jöfn og þétt frá hádegi allt fram á kvöld líkt og fyrri ár.

Gestir nýttu sér mjög vel þjónustu strætó til að komast til og frá miðborginni. Þá gekk umferð greiðlega frá miðborginni strax eftir flugeldasýninguna.

Stemningin var góð allan daginn og greinilegt að fólk hafi kunnað vel að meta að geta gengið um götur miðborgarinnar á þessum degi án þess að þurfa að hafa áhyggjur af bílaumferð, að því er segir á vef Reykjavíkurborgar.