Fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir umfangsmiklu tekjutapi verður gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti til að tryggja réttindi launafólks og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja.
Þetta kynnti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundi í Þjóðmenningarhús undir hádegi, strax að loknum ríkisstjórnarfundi þar sem þetta var ákveðið.
Samkvæmt heimildum Viljans úr atvinnulífinu verður þetta útspil til þess að gríðarlegur fjöldi fyrirtækja muni segja upp starfsfólki nú um mánaðarmótin og nýta sér þetta úrræði til að verja takmarkað lausafé.
Engu að síður er ljóst, að stjórnendur margra fyrirtækja munu þurfa að gefa bú upp þeirra til gjaldþrotaskipta fyrir mánaðarmót.
Hlutastarfaleiðin verður framlengd til hausts með breytingum og settar verða einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem miða að því þau geti komist í skjól með einföldum hætti.
Ríkisstjórnin hefur samþykkt þrjár tillögur um stuðning við launafólk og fyrirtæki. Markmið þeirra er að draga úr þeim skaða sem umfangsmiklar uppsagnir og fjöldagjaldþrot valda þannig að staðinn verði vörður um réttindi launafólks á sama tíma og stuðlað verði að kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins.
- Hlutastarfaleið verður framlengd en hefði að óbreyttu fallið úr gildi þann 1. júní nk. Afkoma tugþúsunda launafólks hefur verið varin frá því að leiðin tók gildi en ljóst er að efnahagshorfur hafa breyst umtalsvert á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá gildistöku hennar. Hlutastarfaleiðin verður því framlengd án breytinga með 25% lágmarksstarfshlutfalli út júní en lágmarkið hækkar í 50% í júlí. Leiðin verður í boði til 31. ágúst. Sækja þarf um framlengingu leiðarinnar og skilyrði fyrir þátttöku verða endurskoðuð.
- Settar verða tímabundið einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Byggt verður á núgildandi grunnreglum en breytingar miða að því að fyrirtæki geti komist í skjól á einfaldan hátt á meðan verið er að meta stöðu þeirra og uns meiri vissa fæst um framtíðarhorfur. Breytingar lúta m.a. að skilyrðum fjárhagslegrar endurskipulagningar, beiðni og umfjöllun um hana, tímafrestum, heimildum til ráðstafana og riftunar- og vanefndaheimildum viðsemjenda.
- Í því skyni að tryggja réttindi launafólks og forða gjaldþrotum eins og kostur er verður fyrirtækjum gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Stuðningurinn verður í formi greiðslu að hámarki 633 þús.kr. á mánuði í allt að þrjá mánuði auk orlofs og einskorðast við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir að lágmarki 75% tekjufalli og sjá fram á áframhaldandi tekjufall að minnsta kosti út þetta ár. Áætlað er að um fjórðungur fyrirtækja hafi orðið fyrir slíku tekjutapi. Hámarkshlutfall stuðnings ríkisins verður 85%. Starfsmenn skulu eiga forgang til starfs þegar starfsemi hefst að nýju og halda tilteknum áunnum réttindum. Sett verði nánari skilyrði, til að mynda um rekstrarhæfi fyrirtækis, fyrir aðild að þessu úrræði og um endurkröfurétt. Leiðin er í boði frá 1. maí til 30. september.
Unnið er að frumvörpum um tillögurnar í félagsmála-, fjármála- og efnahags- og dómsmálaráðuneyti. Samráð verður haft við aðila vinnumarkaðarins um endanlegar útfærslur.