Grindavík af neyðarstigi á hættustig

Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann á Suðurnesjum, hefur ákveðið að breyta almannavarnarstigi vegna jarðhræringa við Grindavík, af neyðarstigi niður á hættustig frá og með klukkan 11 á morgun, fimmtudaginn 23. nóvember.

Það var ákveðið í kjölfar á nýju stöðumati Veðurstofu Íslands, þar sem fram kemur meðal annars að út frá gögnum sem stuðst er við í hættumati Veðurstofunnar og að teknu tilliti til þróunar síðan 10. nóvember sl, hafa líkur á skyndilegri gosopnun innan bæjarmarka Grindavíkur farið minnkandi með hverjum degi og eru í dag taldar litlar. Land rís ennþá í Svartengi og kvika þar gæti flætt á ný undir í kvikuganginn undir Grindavík. Veðurstofan segir fyrirboða um slíka atburðarrás yrði hægt að greina á skjálfta- og GPS mælum.  

Áfram eru taldar líkur á eldgosi á svæðinu yfir kvikuganginum, líklegasta milli Hagafells og Sýlingarfells.

Almannavarnir árétta að svæðið er enn vel vaktað, og hætta er til staðar. Íbúum verður ekki fylgt inn á svæðið en björgunarsveitir verða í viðbragðsstöðu víða um bæinn.

Með hliðsjón af þessu hefur verið tekin ákvörðun um rýmri heimildir íbúa Grindavíkur til að huga að eigum sínum.

Almannavarnir vilja ítreka að öðrum er óheimil för inn í bæinn. Þetta eru rýmri heimildir til íbúa Grindavíkur, ekki almennings.

Rýmri aðgangur þýðir að:

  • Íbúum verður heimilt að fara inn í Grindavík næstu daga til að sækja verðmæti og huga að eigum sínum. Á meðan ekkert breytist til verri vegar verður Grindavíkurbær opinn íbúum frá klukkan 9 að morgni, til klukkan 16:00. Þá er bærinn rýmdur. Fimmtudaginn 23. nóvember opnar bærinn ekki fyrr en klukkan 11:00 sbr. þegar hættustig tekur gildi.
  • Áfram er farið fram á að íbúar Grindavíkur skrái sig á island.is og fái þar heimild til þess að fara inn. Hún mun berast án tafar.
  • Grindavík er lokuð fyrir óviðkomandi umferð.
  • Fjölmiðlum er heimilaður aðgangur.