Samtök atvinnulífsins hafa gefið út skýrslu sem nefnist Menntun og færni við hæfi. Í henni er að finna um þrjátíu tillögur sem miða að því að bæta öll skólastig, framhaldsfræðslu og umgjörð menntamála.
„Helstu áskoranir voru skilgreindar í upphafi sem slakur námsárangur grunnskólanema, lágt hlutfall nema sem innritast í iðn-, verk og listnám, mikið brotthvarf í framhalds- og háskólum, lágt hlutfall nema í sjálfstætt starfandi skólum og breytingar á hæfnikröfum vegna tæknibreytinga. Meðal helstu tillagna er að leikskólapláss verði tryggt strax eftir fæðingarorlof, grunnskóli verði styttur um eitt ár, sama verði greitt með grunnskólabörnum óháð rekstrarformi skóla sem þau fara í, háskólar verði sameinaðir og það verði teknar upp fjöldatakmarkanir í þeim að norrænni fyrirmynd,“ segir á vef Samtaka atvinnulífsins.
Skýrsluna má nálgast hér (PDF)
Vinna við skýrsluna hefur staðið yfir í hátt í tvö ár. Leitað var til tuga sérfræðinga sem starf víða í skólakerfinu og um hundrað heimildir notaðar; innlendar og erlendar bækur, skýrslur, fræðigreinar, tölur og fréttir.
Helstu tillögur
Leikskóli: Leikskólapláss verði tryggt öllum börnum eftir að fæðingarorlofi lýkur. Brúa þarf umönnunarbil sem myndast hefur þar á milli. Rannsóknir sýna að það lendi oftar á mæðrum sem geti haft slæm áhrif á frama þeirra. Lögð verði meiri áhersla á forgangsröðun fjár en að horfið verði frá hugmyndum um lækkun leikskólagjalda eða gjaldfrelsi.
Grunnskóli: Skólaárum verði fækkað í níu með lengingu skólaársins. Það muni bæta námsrárangur, minnka umönnunarbil, draga úr kennaraskorti, hækka ævitekjur, vega á móti neikvæðum afleiðingum öldrunar þjóðarinnar, auka hagvöxt og stuðla að betri nýtingu fjár í kerfinu.
Framhaldsskóli: Fjölga þurfi til muna þeim sem sækja iðn-, starfs- og listnám. Til þess þurfi ekki aukið fé heldur fyrst og fremst aukna fræðslu allt frá grunnskóla og hugarfarsbreytingu hjá foreldrum og ungmennum.
Háskóli: Fjöldatakmarkanir verði teknar upp í háskólum að norræni fyrirmynd í tengslum við endurskoðun fjármögnunarlíkans háskólanna. Það muni stuðla að betri nýtingu fjár sem muni skila sér í betri gæðum náms. Háskólar verði sameinaðir sem muni auka gæði náms, auka hagræðingu, bæta nýtingu mannauðs og styrkja skólana auk þess sem hægt verði að minna sterkari landsbyggðareiningar.
Framhaldsfræðsla: Fyrirsjáanlegt er að störf muni hverfa og ný skapast með tæknibreytingum. Ekki er sjálfgefið að þeir sem gegni störfum sem hverfa hafi til að bera þá færni sem nýju störfin þarfnast. Mæta þarf því með öflugri framhaldsfræðslu, styrkingu vinnustaðarins sem námsstaðar og skýrara hlutverk starfsmenntasjóða.
Sjálfstætt starfandi skólar: Rannsóknir sýna að námsárangur nemenda er betri, og auðveldara er að fá hæfa kennara í krefjandi bekki, þar sem stjórnendur hafa meira sjálfstæði. Því þarf að fjölga sjálfstætt starfandi leik-, grunn og framhaldsskólum. Það verður t.d. gert með því að tryggja nemanda sama fjármagn frá hinu opinbera óháð því hvaða skóla hann velur.
Áherslur SA voru kynntar á fjölmennum fundi á Grand Hótel Reykjavík. Upptaka frá fundinum er aðgengileg hér að ofan í Sjónvarpi atvinnulífsins.
Sjá nánar: