Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að það sé kaldhæðnislegt að þeir sem harðast tali nú gegn innleiðingu orkupakka þrjú hjá Evrópusambandinu hafi ekkert gert til að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri meðan málið var í undirbúningi í EES-samstarfinu í Brussel. Málið sé allt of langt komið nú.
Þetta kom fram í viðtali við utanríkisráðherra á Bylgjunni í morgun. Mikil andstaða er við innleiðinguna innan allra stjórnarflokkanna og hafa flokksstofnanir ályktað gegn henni. Guðlaugur Þór bendir hins vegar á að samevrópskar reglur í orkumálum hafi verið í gildi hér á landi vegna EES-samningsins um langt árabil, orkumálin séu hluti af fjórfrelsinu sem sé okkur Íslendingum svo mikilvægt sem útflutningsþjóð.
„Ég er enginn aðdáandi Evrópusambandsins,“ sagði utanríkisráðherra, en undirstrikaði að gera verði skýran greinarmun á Evrópusambandinu og EES-samningnum.
Fram hefur komið að aðild Íslands að EES geti verið í uppnámi, neiti Íslendingar að leiða orkupakkann í innlenda löggjöf og reglugerðir. Slíkt hefur aldrei gerst áður.
Rangfærslum haldið að þjóðinni
Guðlaugur Þór sagði að ýmsum rangfærslum væri haldið að þjóðinni í þessum efnum, ekki standi til að einkavæða Landsvirkjun og ekki sé gerð krafa um lagningu sæstrengs til að flytja rafmagn til Evrópu.
Hann tekur ekki undir gagnrýni Jóns Baldvins Hannibalssonar, fv. utanríkisráðherra á orkupakkann og telur að kostir innleiðingar hans séu meðal annars fólgnir aukinni neytenda- og umhverfisvernd.
Aðspurður hvort ekki sé skynsamlegra að gæta hagsmuna Íslands í beinum tvíhliða viðræðum við Evrópusambandið, segir Guðlaugur Þór að nærtækt sé að horfa til reynslu Breta í því efni. Þeir séu fimmta stærsta efnahagsveldi heims, en hafi ekkert gengið að semja við Brussel um útgöngu vegna Brexit. Erfitt sé að halda því fram að Íslendingum myndi ganga betur.