Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og varaformaður Vinstri grænna, kvaðst á Alþingi í dag ekki kannast við að neitt samkomulag hefði verið gert millum stjórnarflokkanna um breytingar á löggjöf um hælisleitendur í tengslum við aðgerðir til að koma fólki á Gaza, sem fengið hefur dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar, hingað til lands.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, innti Guðmund Inga eftir því hvort samkomulag hefði orðið milli stjórnarflokkanna um breytingar í þessum efnum, þar eð Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefði verið mjög afdráttarlaus undanfarna daga og sagt ítrekað og á mjög skýran hátt að það kæmi ekki til greina að fara í slíka aðgerð, þ.e. að sækja fólk á svæðið, enda væri um risaaðgerð að ræða, nema áður væri búið að komast að niðurstöðu um einhverjar heildarbreytingar í hælisleitendamálum og í útlendingalöggjöfinni.
Guðmundur Ingi sagði vinnu vissulega hafa átt sér stað í ráðherranefnd um útlendinga og innflytjendur, „þar sem ýmsar hugmyndir hafa verið reifaðar um heildstæða nálgun á þessum málaflokkum“ og hann teldi það jákvætt.
Meira rætt um inngildingu í samfélagið
„Þar höfum við verið að ræða meira um inngildingu í samfélagið. Við höfum verið að ræða má segja ferlið allt frá því að fólk kemur hingað til lands, hvort sem það er í gegnum hælisleitendakerfið eða sem innflytjendur, og síðan áframhaldandi búsetu hérlendis með tilliti til aðlögunar að samfélaginu. Við höfum ekki verið að líta á þetta sem hluta af því verkefni sem er að aðstoða fólk við að koma hingað sem dvalarleyfishafar og sem tengist þá fjölskyldusameiningunni niðri á Gaza, þannig að það hefur engin slík samþykkt verið á þessu, um einhvers konar heildaaðkomu að þessu. Það hefur vissulega verið rætt en ekki í þessu samhengi sem hv. þingmaður setur það hér fram í,“ bætti hann við.
Sigmundur Davíð þakkaði félagsmálaráðherra fyrir „tiltölulega skýr svör“. „Það hefur sem sagt á engan hátt verið brugðist við kröfu utanríkisráðherra um endurskoðun á kerfinu í heild samhliða því að farið yrði í þær aðgerðir sem nú eru farnar af stað. Þá veltir maður fyrir sér hvers vegna þessi sinnaskipti urðu. Ég veit að hæstv. ráðherra getur hugsanlega ekki svarað því en hann var skýr með að menn ræði nú eitt og annað í þessari ráðherranefnd um útlendingamál, m.a. inngildingu, og kemur engum á óvart að þau ræði meira um inngildingu en aðlögun. Þau hafa eflaust rætt þetta vikum, mánuðum og jafnvel árum saman án þess að mikill árangur hafi náðst.“
Hvað sagði Bjarni Benediktsson?
Í viðtali í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku, benti Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra á að það væri risaaðgerð á íslenskan mælikvarða, að aðstoða svo stóran hóp fólks á Gaza við að komast til Íslands.
„Þetta [er] engin einföld aðgerð, þetta er risaaðgerð og þessa aðgerð getum við ekki farið út í án þess að ræða hana í einhverju heildarsamhengi sem ég hef verið að leggja áherslu á að við gerum og við höfum haldið fundi í ráðherranefndinni um útlendingamál þar sem við erum meðal annars að fara yfir stöðuna í hælisleitendamálum þannig að ákvarðanir í þessu efni verði teknar í samhengi við það hvaða ráðstafanir aðrar þarf að gera í hælisleitendakerfinu á Íslandi þannig að það getur enginn sagt þegar að við höfum verið meðal hæstu þjóða í framlögum til mannúðaraðstoðar inni á þessu svæði og verið að taka við þetta mörgum flóttamönnum, hælisleitendum til Íslands, að hér sé ekkert að gerast, það er bara alrangt, það er ekki nálgun sem stenst neina skoðun.
Telma Tómasson fréttamaður: „Félagsmálaráðherra og forsætisráðherra sem eru vel að merkja bæði í Vinstri grænum, þau virðast ekki vera sammála því að þessi töf sé á málinu, þau vilja grípa til aðgerða strax og fara að ná í fólk, ekki þarf að ná í alla 100 í einu, eða hvað?“
Bjarni Benediktsson: „Nei, við höfum verið að undirbúa þær aðgerðir og við höfum verið í samskiptum bæði við Egypta og Ísraelsmenn og höfum verið að deila með þeim stöðu málsins og kynna okkur stöðuna á Norðurlöndunum í þessu samhengi en þessir ráðherrar sem þú nefnir eru einmitt með mér á þessum fundum í ráðherranefndinni þar sem við erum að skoða þessa stöðu heildstætt. Þegar að hælisleitendamálaflokkurinn er farinn að kosta okkur Íslendinga 20 milljarða á ári þá er komið að því að við förum að taka ákvarðanir sem standast einhverja skoðun þannig að við getum sem þjóð tekið almennilega og staðið undir væntingum þegar að við bjóðum fólki að koma hingað og fá hæli, samþykkjum þeirra umsóknir, við getum einfaldlega ekki haldið áfram í einhverri blindni að samþykkja mun fleiri heldur en allir aðrir.“