Guðni Jóhannesson, forseti Íslands, verður í St. Pétursborg nú á þriðjudaginn 9. apríl og hittir Vladimir Pútin Rússlandsforseta í tengslum við norðurslóðaráðstefnu þar. Forsetarnir hittust síðast á svipaðri ráðstefnu í Arkhangelsk árið 2017.
Á vefsíðu Kremlar, rússnesku forseta- og stjórnarsíðunni, segir frá þessu. Þar kemur einnig fram að Pútin ætli að hitta Sa Niinistö, forseta Finnlands, Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Á vefsíðunni segir að rætt verði um stöðu tvíhliða samskipta Rússa við viðkomandi ríki, alþjóðamál og svæðisbundin málefni með sérstakri áherslu á samvinnu á norðurskautssvæðinu.
Ráðstefnan í St. Pétursborg stendur í tvo daga. Þar verður athygli sérstaklega beint að siglingum fyrir norðan Rússland eftir norðurleiðinni frá Atlantshafi til Kyrrahafs, umhverfismálum og olíuvinnslu í Norður-Íshafi.
Af vardberg.is, birt með leyfi.