Guðni Th. mun ávarpa þjóðina á páskadag

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands mun ávarpa þjóðina í beinni sjónvarpsútsendingu að kvöldi páskadags, eða á sunnudaginn eftir viku.

Fróðir aðilar, sem Viljinn hefur rætt við í kvöld, minnast þess ekki að forsetinn hafi áður ávarpað þjóðina í beinni útsendingu utan hefðbundinna dagsetninga á borð við nýársdag, setningu Alþingis eða á sérstökum blaðamannafundum og almennt er gert ráð fyrir að ávarpið muni Guðni Th. nota til að stappa stálinu í þjóðina á tímum Kórónuveirunnar Covid-19 og samkomubanns sem standa mun til 4. maí næstkomandi.

Forsetinn minnist í færslu á fésbókinni í kvöld þeirra tveggja sem létust í vikunni af völdum Kórónuveirunnar.

„Fyrir hönd okkar Elizu votta ég ástvinum þeirra innilega samúð. Og enn skulu ítrekaðar þakkir til allra þeirra sem standa núna í ströngu við að vernda líf og heilsu fólks,“ segir hann.

Og hann bætir við:

„Að viku liðinni, á páskadag, mun ég ávarpa ykkur með formlegri hætti, ágætu landar mínir.“

Leiðtogar margra ríkja hafa ávarpað landa sína undanförnu og gert þannig undantekningar frá óskráðum reglum um ávörp af þessu tagi. Þannig flutti Margrét Þórhildur Danadrottning nýlega ávarp um Kórónuveirufaraldurinn og Elísabet II. Bretadrottning mun ávarpa þjóð sína á morgun, sunnudag.