Guðni Th., Ólafur Ragnar og Katrín koma öll fram

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands verður sérstakur gestur á upplýsingafundi Almannavarna á morgun, sem sýndur verður að venju í beinni útsendingu kl. rúmlega tvö.

Þríeykið landsfræga; Alma Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn verður jafnframt á fundinum.

Þá mun Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpa þjóðina í beinni útsendingu kl. 20 annað kvöld í Ríkissjónvarpinu.

Ólafur Ragnar Grímsson, fv. forseti, verður jafnframt gestur í Silfrinu á morgun, en fyrir helgi var greint frá því að Dorrit Moussaieff eiginkona hans hefði veikst af kórónuveirunni Covid-19, en væri búin að ná góðum bata.

Á miðnætti annað kvöld taka gildi ýmsar tilslakanir á samkomubanni sem hefur verið í gildi undanfarnar vikur, auk þess sem skólahald og íþróttastarf á að komast að mestu í venjulegt horf.