Besti knattspyrnumaður okkar Íslendinga, Gylfi Sigurðsson sem leikur með Everton í ensku knattspyrnunni, kveðst vera trúaður maður. Hann biðji bænir á kvöldin, en þó ekki fyrir leiki.
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Gylfa eftir Hörð Snævar Jónsson í helgarblaði DV sem kom út í dag. Í viðtalinu fer Gylfi yfir feril sinn, gengi landsliðsins og sambandið við unnustuna Alexöndru Helgu Ívarsdóttur, en þau hyggjast gifta sig á næsta ári. Hann ræðir þá ákvörðun sína að hafa aldrei smakkað áfengi og möguleikann á að flytja aftur heim til Íslands eftir að atvinnumannaferillinn er á enda.
En einlæg yfirlýsing Gylfa um trúna vekur athygli, því margir hafa komið fram opinberlega upp á síðkastið og tjáð sig um trúna. Skemmst er að minnast þess að félagi Gylfa í landsliðinu, Emil Hallfreðsson sem leikur á Ítalíu, lýsti því yfir í viðtölum að trúin gæfi honum mjög mikið.
Gylfi segist ekki alveg vera á sama stalli og Emil þegar komi að trúnni, en hann sé þó alveg trúaður.
„Ég fer ekki með bænir fyrir leiki, en geri það á kvöldin,“ segir hann.