Nafnarnir Gylfi Magnússon og Gylfi Zoega gagnrýna báðir þau atriði í nýjum lífskjarasamningum sem varða Seðlabankann harðlega í viðtali við bandarísku fréttaveituna Bloomberg í dag.
Báðir eru þeir doktorar í hagfræði, Gylfi Magnússon er formaður bankaráðs Seðlabankans og umsækjandi um stöðu seðlabankastjóra, en Gylfi Zoega á sæti í peningastefnunefnd Seðlabankans sem ákveður vaxtastigið í landinu.
Með samkomulaginu telja þeir vegið að sjálfstæði Seðlabankans.

„Þetta er ekki í lagi,“ segir Gylfi Zoega á Bloomberg. „Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun,“ bætir hann við og segir „brjálaða hugmynd (e. crazy idea)“ að setja bankann í þá stöðu að geta ekki hamlað gegn verðbólgu með vaxtahækkunum.
Undir þetta tekur Gylfi Magnússon sem telur samkomulagið skrítið. Hann hefur líka undrast ákvæði um að banna verðtryggð lán til 40 ára.

Eins og Viljinn greindi frá fyrr í dag, telur dr. Ásgeir Jónsson forseti Hagfræðideildar Háskólans og annar umsækjandi um stöðu seðlabankastjóra, að bankinn geti ekki verið bundinn af slíku samkomulagi.
„Í frjálsu hagkerfi endurspegla nafnvextir verðbólguvæntingar – náið er nef augum. Hins vegar, hefur Seðlabankinn lögbundna skyldu til þess að halda verðstöðugleika — og beita stýrivöxtum. Vonandi mun nú skapast færi til vaxtalækkanna — en þegar til framtíðar er litið geta kjarasamningar ekki bundið Seðlabankann eða varnað því að bankinn hækki vexti — sé þess þörf,“ segir hann.