Gylfi víkur sæti í bankaráði þegar kemur að tilnefningu

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, á þingnefndarfundi í síðustu viku.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, mun víkja af fundi þegar bankaráðið tilnefnir í matsnefnd um umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra.

Gylfi er einn þeirra sextán sem sótt hafa um stöðuna.

Viljinn sendi Gylfa þrjár spurningar í tilefni af umsókn hans:

1. Hefurðu sagt af þér, eða muntu segja af þér tímabundið formennsku í bankaráði Seðlabanka Íslands á meðan umsóknarferli stendur?
2. Hvernig mun bankaráð haga tilnefningu sinni i matsnefnd vegna ráðningarinnar nú þegar ljóst er að formaðurinn er einn umsækjenda?
3. Hefur verið skoðað hvort allt bankaráðið kann að vera vanhæft til að velja í hæfisnefndina í ljósi þess að formaður þess er meðal umsækjenda?

Gylfi svaraði fyrirspurn Viljans með svofelldum hætti:

„Ég mun víkja af fundi þegar bankaráðið tilefnir í matsnefnd og ekki koma með neinum hætti að tilnefningunni. Get því ekki svarað síðari spurningunum tveimur.“

Matsnefnd er ætlað að leggja mat á umsóknir um stöðu seðlabankastjóra. Í henni eiga þrír sæti. Einn fulltrúi forsætisráðherra (án tilnefningar), einn frá bankaráði Seðlabankans og einn frá samráðsvettvangi háskólastigsins.