Hæfastur í starfið

Stjórn Icelandair hefur ákveðið að fastráða Boga Nils Bogason sem forstjóra félagsins. Var þetta tilkynnt í Kauphöll Íslands í morgun.

Bogi hefur verið fjármálastjóri Icelandair Group undanfarin ár og starfandi forstjóri fyrirtækisins um skeið eftir brotthvarf Björgólfs Jóhannssonar í ágúst sl.

Haft er eftir Úlfari Steindórssyni, stjórnarformanni Icelandair í tilkynningu, að margir mjög hæfir stjórnendur hafi komið til greina í starf forstjóra, en leitað hafi verið að rétta aðilanum í starfið um nokkurra mánaða skeið í samstarfi við Capacent á Íslandi og alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Spencer Stuart. Einróma niðurstaða væri að Bogi Nils væri hæfastur í starfið. Hann þekki fyrirtækið, hafi skýra framtíðarsýn og sé vel til þess fallinn að leiða það til framtíðar.

Bogi Nils er fæddur 1969 og er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og er löggiltur endurskoðandi. Hann er giftur Björk Unnarsdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau þrjú börn.